Laugardagur 24. maí 2008

145. tbl. 12. árg.

R íkisstjórnin fagnaði eins árs afmæli sínu í gær með afmælisveislu í ráðherrabústaðnum. Til hátíðarbrigða bauð hún börnum af leikskólanum gegnt ráðherrabústaðnum til veislunnar. Engu er líkara en að þessi skemmtilega tilbreyting hafi lekið úr sandkassanum til helstu fjölmiðla landsins degi áður en boðið hófst og birtu þeir allir samhljóða frétt um hve ríkisstjórnin ætlaði að vera góð við börnin á afmælinu. Þegar allt var um garð gengið kom að sjálfsögðu önnur frétt á helstu fréttavefjum og sjónvarpsstöðvum um hve ríkisstjórn hefði nú verið góð við börnin í boðinu.

Sem kunnugt er hefur hagur þjóðarinnar versnað nokkuð að undanförnu og tók ríkisstjórnin eðlilega tillit til þess þegar risna fyrir afmælisboðið var ákveðin. Nú er kominn tími aðhalds og sparnaðar á öllum sviðum. Vefþjóðviljinn fagnar því um leið og hann óskar ríkisstjórninni til hamingju með áfangann.

Ríkisstjórnin sparaði þjóðarbúinu eitt karton af Svala og eina skúffuköku með súkkulaðibragði í afmælinu í gær. Annað hvert barn á leikskólanum fékk boð í afmælið. Hin sátu í glugganum á skólanum sínum og mændu á dýrðina handan götunnar.

Og þar sem jafnaðarmenn eru komnir í stjórn blasir við að það voru litlu krakkarnir sem sátu eftir við skjáinn þessar mínútur sem myndavélarnar voru í gangi.

Kláriði nú af diskunum krakkar því fjölmiðlarnir eru farnir.