Föstudagur 23. maí 2008

144. tbl. 12. árg.

B jörn Lomborg segir frá því í grein í The Wall Street Journal í gær hvernig menn eigi að takast á við vandamál heimsins, How to Think About the World’s Problems. Hann bendir á að margir séu að vakna upp við vondan draum vegna hækkana á matarverði sem geta haft skelfilegar afleiðingar fyrir snauðasta hluta mannkyns.

Hækkunina má meðal annars rekja til aðgerða gegn gróðurhúsaáhrifunum en einhverjum snillingum datt í hug að gæfulegra væri að rækta korn og grænmeti fyrir bíla en fyrir svanga munna. Lomborg segir að svona fari þegar barátta eins og sú sem háð er gegn gróðurhúsaáhrifunum fari að lifa sjálfstæðu lífi óháð öllu öðru. Hann segir þróun matvælaverðs minna menn á að líta ekki aðeins þau vandamál sem mest er snakkað um eins og gróðurhúsaáhrifin.

Hann rekur nokkur dæmi um frekar ódýrar aðgerðir sem grípa mætti til í þróunarlöndunum en myndu skila miklum árangri.  Rannsóknir fyrir Copenhagen Consensus, sem er rannsóknastofa undir forystu Lomborgs, sýna að þessar ódýru aðgerðir skila miklu meiri ávinningi en aðgerðir gegn gróðurhúsaáhrifunum.

En er ekki bara hægt að gera hvort tveggja, spyrja vafalaust sumir. Jú ef menn hefðu ótakmarkað fé væri það hægt en það er bara ekki þannig.

Í næstu viku munu hagfræðingar þinga á vegum Copenhagen Consensus um 50 vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir og meta lausnirnar sem í boði eru. Þeir ætla að raða þeim eftir hve árangursríkar þær eru; hvað kosta þær og hverju skila þær. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvar aðgerðir gegn hlýnun andrúmsloftsins lenda á þessum lista.