Fimmtudagur 22. maí 2008

143. tbl. 12. árg.

M

Engar almenningssamgöngur lengur. Maður á einkahjóli fer um Vía Verde de la Jara við Toledo á Spáni.

argir trúa því að hópflutningar fólks í járnbrautarlestum og strætisvögnum séu framtíðin. Það er sama hvað slíkt kostar alltaf skulu vera til fullorðnir menn sem sjá lestir, sporvagna og strætó í hyllingum.

En þótt til séu menn sem eru svo ungir í anda að þeir gefa nær hvað sem er af annarra manna fé til að komast í lestarleik er þróunin ekki öll á þeirra bandi.

Í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada hefur gömlum lestarteinum verið breytt í göngu- og hjólreiðastíga um áratuga skeið. Fyrir fimmtán árum hófu Spánverjar að feta sömu slóð með áætlun undir nafninu Vías Verdes eða Grænir vegir.

Nú hefur nær sextíu lestarsporum sem spanna alls 1.500 kílómetra vera breytt í göngu- og hjólastíga. Þetta er þó aðeins lítill hluti af þeim lestarsporum sem eru ekki lengur í notkun sem slík. Alls reyndust 7.600 kílómetrar af teinum og nær þúsund lestarstöðvar vera ónýtt þegar málið var kannað árið 1993. Svo það er mikið verk fyrir höndum hjá þeim sem vinna að málinu og spænskir skattgreiðendur eiga án efa eftir að leggja talsvert í púkkið enn.

Yfir hundrað þúsund manns fóru um vinsælasta grænveginn, Vía Verde del Carrilet við rætur Pýreneafjalla, á síðasta ári en hann er yfir 100 kílómetra langur og nær frá fjöllunum niður að Costa Brava um Girona í Katalóníu.

Þetta er lítið dæmi um að þróunin er ekki öll í þá átt að smala fólki saman í vagna og flytja alla á sama stað.