Miðvikudagur 21. maí 2008

142. tbl. 12. árg.

U pphaf núverandi niðursveiflu á fjármálamörkuðum heimsins má rekja til aukinna vanskila svokallaðra sub-prime lána í Bandaríkjunum. Sub-prime lánin voru veitt fólki sem átti litlar eignir og stóðst ekki greiðslumat. Lánin voru gjarnan á góðum kjörum til að byrja með. Veitendur þessara lána höfðu engra sérstakra hagsmuna að gæta því þeir seldu bréfin áfram í svokallaða skuldabréfavafninga. Vafningar þessir voru svo seldir um víðan völl og þess vegna hefur þessi tiltölulega litli lánaflokkur haft svo víðtæk áhrif á hagkerfi heimsins.

Íslenska hagkerfið er það sem einna harðast hefur orðið fyrir barðinu á þessum óróa, enda hagkerfið háð erlendu lánsfé. Seðlabankinn hefur reynt að koma böndum á ofhitnun hagkerfisins með stýritæki sínum, vöxtum, en orðið lítið ágengt. Ástæðan er sú að samkeppni er á milli gjaldmiðla og eftir að Seðlabankinn verðlagði mynt sína of hátt hafa margir skipt yfir í aðrar myntir, ýmist erlendar eða verðtryggða krónu.

Þetta er megin ástæða þess að Seðlabankanum hefur orðið lítið ágengt í baráttu við verðbólguna, barátta sem var fyrirfram töpuð vegna fylgispektar bankans við tískukenninguna um verðbólgumarkmið. Það hefur verðlagt myntina jafnt og þétt út af markaðnum og jafnframt stuðlað að miklu ójafnvægi í utanríkisverslun þjóðarinnar.

Önnur ástæða er vitanlega sú að hið opinbera hefur algerlega misst tökin á útgjöldum sínum í góðærinu, og þótt útgjöld hins opinbera hafi ekki verið tiltakanlega há sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) í uppsveiflunni að þá mun síga hratt á ógæfuhliðina þegar hagkerfið kemst í eðlilegra horf. Þannig spáir Seðlabankinn í Peningamálum í apríl að útgjöld hins opinbera sem hlutfall VLF hækki í úr 43% nú í 48% árið 2010 og halli á rekstri hins opinbera verði 8% af landsframleiðslu!

Hluti af þessu hömluleysi ríkisins er að niðurgreiða íbúðalán í gegnum ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði. Ríkisstjórnin hefur boðað breytingar á Íbúðalánsjóði, þótt enn hafi ekki komið fram í hverju hún eigi að felast. Stjórnmálamenn, eins og Illugi Gunnarsson og Jóhanna Sigurðardóttir, segjast þó ætla að standa um félagslegt hlutverk sjóðsins. Í hverju skyldi það svo felast? Að lána fólki til íbúðakaupa sem ekki stenst greiðslumat, eða ginna það til kaupa á svæðum sem eru áhættusamari en önnur sökum fámennis og fárra atvinnutækifæra. Viðbrögðin við alþjóðlegu sub-prime bólunni á Íslandi er sumsé að blása meira lofti í okkar eigin sub-prime bólu.