Föstudagur 16. maí 2008

137. tbl. 12. árg.
Álag vegna meðhöndlunar sprautufíkla hefur aukist mjög á starfsfólk smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Að sögn Magnúsar Gottfreðssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar, hafa alvarlegar en sjaldgæfar blóðsýkingar meðal sjúklinga mjög færst í vöxt. Fíkniefnaneysla eykur mjög hættu á slíkum sýkingum. „Þetta eru lífshættulegar sýkingar og dánartíðnin fimmtán til þrjátíu prósent. Samt sjáum við í rauninni bara toppinn á ísjakanum. Það er mjög átakanlegt að horfa upp á þetta fólk sem ætti að eiga framtíðina fyrir sér láta lífið eða glíma við króníska sjúkdóma af völdum fíkniefnaneyslu,“ segir Magnús. –
Frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

V iðurlög við fíkniefnasölu, annarri en þeirri sem ríkið sér sjálft um, voru hert mjög fyrir nokkrum árum. Refsingar við fíkniefnabrotum slaga nú upp í refsingar fyrir manndráp og eru miklu harðari en fyrir alvarlegar líkamsárásir.

Vafalaust hefur það verið hugsun þeirra sem samþykktu þessara lagabreytingar að draga úr skaðanum sem fíkniefni valda. En það er auðvitað líka þægilegt fyrir stjórnmálamenn að geta vísað í að hafa hert refsingar þegar þeir eru spurðir hvað þeir hafi gert til að taka á fíkniefnavandanum. Sýnir það ekki með skýrum hætti að þeir hafi áhyggjur af vandanum?

Hvergi hefur þó tekist að draga úr fíkniefnabölinu með refsigleði af þessu tagi. Menn eru einfaldlega að horfa í ranga átt.Vandi fíkilsins verður ekki leystur með því að lögregla elti fíkniefnasmyglara og loki nokkra þeirra í fangelsi árum saman. Fíkniefnaneysla er persónulegur verknaður sem mönnum tekst jafnvel ekki að koma í veg fyrir í rammgerðum fangelsum þar sem fangar eru undir eftirliti allan sólarhringinn og ekkert fer inn eða út án skoðunar.

Frásögn Fréttablaðsins hér að ofan um ástandið meðal fíkniefnaneytenda í Reykjavík um þessar mundir og dapurlega þróun a síðustu árum virðist að minnsta kosti ekki benda til þess að hinar hertu refsingar hafi gert lífið bærilegra fyrir nokkurn mann.

Þ orgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins gaf því undir fótinn á fundi með sjálfstæðismönnum í Kópavogi í fyrrakvöld að Íslendingar hæfu undirbúning að inngöngu í Evrópusambandið. Hvort er nú betur við hæfi; að leggja þetta til á fundi hjá flokki sem kennir sig við sjálfstæði eða á Kópavogsfundi?