Fimmtudagur 15. maí 2008

136. tbl. 12. árg.

Þ eir stjórnmálamenn sem eiga erfiðast með að segja hug sinn og bera ábyrgð á verkum sínum eru líklegastir til að „vísa málum til þjóðarinnar“, eins og það er kallað. Þetta gerðist í Reykjavík í svonefndu flugvallarmáli. Þegar því máli hafði verið vísað til fólksins tóku sömu stjórnmálamenn og gerðu það svo til við að túlka og teygja niðurstöðuna eftir sínu höfði.

Um þessar mundir telja ýmsir að hægt að sé að hlaupa í felur með álit á því hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið með því einu að segja „þjóðaratkvæðagreiðsla“ eða bara „það þarf vandaða umræðu“.

En það eru ekki allir pólitíkusar við sama heygarðshornið. Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra það í ræðu á Alþingi í morgun að stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum væri óbreytt og ekkert benti til að flokkurinn markaði sér nýja stefnu á næstunni.

Spurningunni um það hvort það verði atkvæðagreiðslur hér á landi um aðild að Evrópusambandinu er líka algjörlega óljós en ég held að það sé algjörlega ljóst að það verður engin slík atkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í forystu um slíka atkvæðagreiðslu þá þyrfti hann að hafa mótað sér nýja og aðra stefnu en hann hefur í dag og það þyrfti að liggja ljóst fyrir að hann væri að leggja til að þjóðin gengi í Evrópusambandið. En þá stefnu hefur flokkurinn ekki markað sér og ég sé ekki fyrir mér að það gerist neitt alveg á næstunni.