Miðvikudagur 14. maí 2008

135. tbl. 12. árg.

Á dögunum var 17 ára skólastúlka, Rand Abdel-Qader, að nafni, barin til dauða. Morðinginn var faðir hennar og ekki þarf að spyrja að því að hann gengur enn laus og veitir blaðaviðtöl af og til. Í samtali við breska blaðið Observer segist hann sjá eftir því einu að hafa ekki komið dótturinni fyrir kattarnef strax við fæðingu hennar.

Og hvað ætli stúlkan hafi gert svo skelfilegt að jafnvel hennar eigin föður þótti hún réttdræp? Jújú, þau bjuggu í Basra í Írak og stúlkan tók upp á því að vingast við breskan hermann. Faðirinn, Abdel-Qader Ali, brá skjótt við, barði hana og stakk þar til hún gaf upp öndina. Og ekki var faðirinn einn við þetta, því í viðtalinu segir hann stoltur frá því að synir sínir tveir hafi verið næg karlmenni til að ljúka verkinu með honum. Að vísu var Abdel-Qader Ali handtekinn og yfirheyrður en látinn laus tveimur tímum síðar. Lögreglumennirnir stóðu með mér allan tímann og óskuðu mér til hamingju, segir Abdel-Qader Ali hæstánægður, og bætir því við að vinir sínir og kunningjar séu algerlega sammála sér í málinu. Þeir viti að gjörðir stúlkunnar hafi verið umfram allt sem nokkur múslimi, sem taki íslam alvarlega, geti sætt sig við.

Ef bara svona frétt væri einsdæmi. Og viðtalið við föðurinn færi nú fram í öryggisfangelsi en ekki í sólríkum garði hans. En það er bara ekki svo. Víða í heiminum býr fólk, ekki síst konur og stúlkur, við skelfilega kúgun og yfirgang, ósjaldan misþyrmingar sem geta orðið að hreinum aftökum. Og frá Vesturlandabúum berst lítill stuðningur, jafnvel ekki þó þetta ástand sé tekið að skjóta rótum á Vesturlöndum, hraðar en margir átta sig á. Eða kannski ekki síður: hraðar en margir vilja viðurkenna fyrir sér.

Nú er auðvitað takmarkað sem fólk getur gert til stuðnings kúguðum í öðrum ríkjum. En ef kúgunin á sér stað nær, þá geta menn reynt að hafa áhrif til hjálpar. Vesturlandabúar verða að láta það mjög greinilega á sér skilja að þeir sem flytji til Vesturlanda verði að gera svo vel að skilja eftir þá hluta „menningar“ sinnar sem snýst um að kúga annað fólk. Auðvitað verður svo að hafa í huga, eins og oft hefur verið minnt á í þessu blaði, að því fer vitaskuld fjarri að allir múslimar séu hrottar sem kúga og undiroka. Vissulega er það svo að hér er það minnihlutinn sem kemur óorði á allan fjöldann. En sú staðreynd má ekki verða að skálkaskjóli. Það er nauðsynlegt að berjast gegn ofstækinu sem lýsir sér ekki aðeins í hörmulegum örlögum hinnar 17 ára írösku stúlku sem eignaðist rangan vin, heldur brýst út í kúgun og ofbeldi dag hvern, ekki aðeins í fjarlægum heimshlutum heldur víða á Vesturlöndum. Þangað til barist hefur verið til sigurs gegn því munu þúsundir saklausra vera fórnarlömb ofstækisins sem bannar kynjunum að umgangast, leggur konur undir skilyrðislaust vald föður síns og bræðra, fyrirskipar strangan klæðaburð kvenna og í sumum tilfellum karla, bannar samneyti við „vantrúaða“, leggur dauðasök við því að ganga af trúnni – og bannar meira að segja saklausa daglega vöru eins og svínakjöt.

Eins og af þessu má ráða, þá er það ekki lítið, ofstækið sem saklaust fólk þarf að glíma við, jafnvel án þess að nágrannar þessi hafi hugmynd um það. En þeim sem vilja átta sig á þessari þróun má benda á hina ógnvekjandi bók, Íslamistar og naívistar, sem til sölu er í Bóksölu Andríkis.

En yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi.