Laugardagur 17. maí 2008

138. tbl. 12. árg.

S eðlabanki Íslands hefur sætt mikilli gagnrýni að undanförnu. Þeir eru ófáir sem þykjast hafa séð það fyrir að hér yrði efnahagslægð. Þorvaldur Gylfason hefur til að mynda spáð því frá 1995 þegar krötum var hrundið úr ríkisstjórn. Spáin rættist innan árs frá því kratar komust aftur til valda en þá voru að vísu 13 ár frá hún var sett fram. Egill Helgason sjónvarpsmaður trúir því til að mynda að Þorvaldur sé mikill spámaður um þessi efni og segir á vef sínum að Seðlabanki Íslands og stjórnmálamenn hafi „sýnt ótrúlegt andvara- og fyrirhyggjuleysi“ en aðrir hafi séð allt fyrir.

Var það ótrúlegt fyrirhyggjuleysi af Seðlabanka Íslands að hækka vexti í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir íslensku eignabóluna sem lýsti sér í margföldun á hlutabréfaverði og snarhækkun á húsnæði, jafnt íbúðum í 101 Reykjavík og eyðibýlum og sumarbústöðum úti í rassgati? Er einhver að segja að hann hefði átt að fylgja lágvaxtastefnu annarra seðlabanka?

Kannski var Seðlabanki Íslands eini seðlabanki Vesturlanda sem sýndi sæmilega dómgreind á undanförnum misserum. Hinir dældu allir ódýru lánsfé út á markaðinn með því að halda vöxtum lágum, blésu eignabóluna upp og sendu röng skilaboð út á markaðinn. Breskir skattgreiðendur hafa þegar tekið einn viðskiptabanka upp á sína arma og bandarískir bankar eru í vandræðum vegna þess að falskar forsendur voru fyrir þeirri vaxtastefnu sem bandaríski seðlabankinn fylgdi. Þessi lágvaxtastefna leiddi til fullkomins dómgreindarbrests á fasteignamarkaði í Ameríku og ótal fjármálastofnanir sitja í súpunni.

Hins vegar má auðvitað kenna það við andvaraleysi að stjórnmálamenn hafi aukið ríkisútgjöld um nær 20% frá 2007 til 2008. Nær væri þó að kenna það við skemmdarverk því á meðan seðlabankinn reyndi að berjast gegn verðbólgubálinu skvettu stjórnmálamenn olíu á eldinn með því að auka útgjöld á nær öllum sviðum.

Ef að þær aðgerðir sem seðlabankinn hefur nú gripið til í samstarfi við seðlabanka Norðurlandanna duga til að koma sæmilegu jafnvægi á gengi íslensku krónunnar hljóta menn miklu frekar að spyrja hvað þeir menn voru eiginlega að hugsa sem kröfðust þess að íslenskir skattgreiðendur gengjust í ábyrgðir fyrir lán í útlöndum upp á mörg hundruð – ef ekki mörg þúsund – milljarða króna. Er ekki rétt að fjölmiðlar haldi því til haga hvaða menn það voru og kanni hvað þeim gekk eiginlega til með tillögum um að sökkva þjóðinni í skuldafen?

Að lokum er það þó ekki aðalatriðið hvaða ríkisseðlabanki veldur mestum usla á markaði með röngum skilaboðum heldur hvenær menn fara að velta því fyrir sér hvort það sé yfirleitt hlutverk ríkisins að gefa út gjaldmiðla og stýra vöxtum.