Mánudagur 28. apríl 2008

119. tbl. 12. árg.

S amfylkingin náði ekki að vera eitt ár í ríkisstjórn áður en 18 ára gamalt verðbólgumet féll. Leita þarf aftur til fjármálaráðherratíðar Ólafs Ragnars Grímssonar til að finna sambærilegar verðbólgutölur og hagstofan sendir nú frá sér. Hækkun verðlags undanfarinn mánuð er sú mesta í 20 ár og árshækkunin sú mesta í 18 ár.

Það er auðvitað margt sem skýrir þessa stöðu. En fjárlög fyrir árið 2008 með nær 20% útgjaldaaukningu voru eins og olía á þetta bál.

Þ að eina sem heldur aftur af verðlagshækkunum um þessar mundir er húsnæðisverðið sem er farið að lækka eða að minnsta kosti hætt að hækka. Formaður félags fasteignasala er mjög ósáttur við að ýmsir spái frekari lækkun húsnæðisverðs og telur það alveg fráleitt. Ætli fólki sem er að hugsa um að kaupa sína fyrstu íbúð á næstunni þykir það mjög miður að þessi markaður hafi snúist við kaupendum í hag?