Þriðjudagur 29. apríl 2008

120. tbl. 12. árg.

B æjaryfirvöld á Akureyri héldu á dögunum reisugildi hins væntanlega „menningarhúss“, Hofs, sem skattgreiðendur eru nú að reisa fyrir norðan. Mætti þar mikið af prúðbúnu fólki til að hlakka yfir framkvæmdinni og til skemmtunar voru meðal annars ræður stórmenna. Eitt slíkt er Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi bæjarstjóri en núverandi alþingismaður og forseti bæjarstjórnar. Samkvæmt Morgunblaðinu hvatti hann bæjarbúa „til að vera stolta af verkinu og hætta tali um að það væri of dýrt.“

Útsvar bæjarbúa í hæstu leyfðu mörkum. Bæjaryfirvöld eru hæstánægð með að reisa menningarhús á þeirra kostnað. Þau eru hins vegar ekki eins ánægð með að sumir af þessum þursum, sem kalla sig bæjarbúa, séu með þá skoðun að húsið, sem þau hafa ákveðið að þeir borgi, sé of dýrt. Þau vilja að bæjarbúar borgi möglunarlaust. Þeir eiga að vera stoltir af húsinu sem bæjarfulltrúarnir ákváðu að byggja á þeirra kostnað og þar sem bæjarfulltrúarnir ætla oft að koma á frumsýningar í framtíðinni og fá sér kampavín.

Fyrir tæpum tveimur árum var tekin fyrsta skóflustunga að þessu húsi og þá sagði Vefþjóðviljinn það sama og hann segir nú:

Meginatriðið í þessu er hins vegar ósköp einfalt og því fá hjal og bros ekki breytt. Bæjarstjórinn á Akureyri innheimtir hátt útsvar af bæjarbúum og rýrir þar með möguleika þeirra til að ráðstafa tekjum sínum eins og þeir sjálfir kjósa. Vissulega nýtir bærinn tekjur sínar þannig að það kemur ýmsum bæjarbúum til góða, en það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að útsvarstekjurnar eru nauðungargjöld sem tekin eru af bæjarbúum með illu ef þeir borga ekki í góðu. Þeir sem ráðstafa slíkum tekjum verða að hafa það í huga að þeir eru að eyða annarra manna peningum og að það eru peningar sem fólk hefði annars kannski notað í húsaleigu, mat, klæðnað, leikföng, tóbak og bækur – eða hvað það er sem hver og einn kýs. Þó stjórnmálamenn vilji auðvitað kaupa af sér þrýstihópana sem tala og tala fyrir sömu gæluverkefnunum, þá breytir það ekki því að útsvarsgreiðendur – og auðvitað skattgreiðendur almennt – eiga líka rétt á því að vera meðhöndlaðir af virðingu.

Það er ekki sérstaklega mikil virðing fólgin í því að taka peninga af fólki nauðugu með þeim rökstuðningi að stjórnmálamennirnir viti betur en fólk hvernig þessir peningar geti „aukið lífsgæði“ þess.