Helgarsprokið 27. apríl 2008

118. tbl. 12. árg.

F all Sovétríkjanna seint á síðustu öld reyndist sósíalistum og öðrum áhangendum alræðishyggju mikið áfall. Má með sanni segja að hugmyndafræðilega hafi talsmenn forsjárhyggju ekki almennilega náð vopnum sínum síðan. Þess í stað hefur þrá þeirra til að koma á þjóðskipulagi þar sem haft væri vit fyrir fulltíða fólki fundið sér annan farveg. Sumir hafa hellt sér út í umhverfisverndarbísnissinn, aðrir helgað sig baráttunni gagn frjálsum milliríkjaviðskiptum og enn aðrir gefið sig alla í að efla skrifræði og miðstýringu á öðrum sviðum, svo sem með því að breyta Hinu evrópska Kola- og stálbandalagi, sem ætlað var að tryggja frið og frjálsa verslun, í reglugerðarófreskjuna Evrópusambandið, þar sem nú er í undirbúningi útgáfa tilskipunar um með hvaða hætti þegnar þess megi náðarsamlegast draga andann.

Þegar forræðishyggjusinnar eru minntir á hvernig hin stórkostlega tilraun Sovétsins fór, stendur ekki lengur á svörum: Hugmyndirnar eru í góðu gildi – það var bara tilraunin sem fór út um þúfur. Þeir telja að það sé ekkert að þeirri hugmynd sem slíkri að ætla sér að hafa vit fyrir öðrum fullvaxta einstaklingum, það var bara þessi tilraun sem fór út um þúfur.

En allt vald spillir og sagan heldur áfram að færa sönnur á að þar sem forræðið er aukið, skerðist frelsið og það er svo fólkið sem á endanum þarf að súpa seyðið af tilraunastarfseminni. Ein slíkra tilrauna hefur verið stunduð á íbúum Simbabve síðustu áratugi. Fljótlega eftir að Bretar losuðu um tök sín á nýlendunni Ródesíu undir lok áttunda áratug síðustu aldar komst til valda Róbert nokkur Mugabe. Á fyrstu tíu árum valdatíðar hans blómstraði einkarekinn landbúnaður á smábýlum og efnahagslífið tók kipp. Í kjölfarið batnaði afkoma almennings, tíðni ungbarnadauða féll og lífslíkur landsmanna bötnuðu. Mugabe og stjórn hans höfðu hins vegar tögl og hagldir í landinu og juku jafnt og þétt völd sín á öllum sviðum þjóðlífsins. Tjáningarfrelsi var takmarkað, skrúfað var fyrir aðgengi að erlendu fjármagni til fjárfestinga í landinu og við tóku viðbjóðsleg gæluverkefni Mugabes, svo sem svonefnd „Gukurahundi“ fjöldamorð, blóðugar ofsóknir gegn samkynhneigðu fólki, tilraunir til að sölsa undir sig námusvæði í Lýðveldinu Kongó.

Af öllum þeim skemmdarverkum sem Mugabe og stjórn hans hafa unnið á landi og þjóð Simbabve hefur víðtækust vesöld líklega leitt af „endurúthlutun“ ræktunarlands. Þegar Simbabve losnaði undan nýlendustjórn Bretum fór fram afkastamikill landbúnaður á um 6000 býlum sem náðu yfir tæplega helming ræktanlegs landrýmis þess. Eigendur býlanna voru nær allir hvítir, en meirihluti landsmanna er svartur. Fram á þessa öld stóðu tekjurnar af þessari starfsemi undir nær öllum útflutningstekjum landsins. Í febrúar 2000 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Ein helsta breytingin skyldi vera heimild til ríkisvaldsins til að gera býli hvítra manna í landinu upptæk og „endurúthluta“ landinu til svartra bænda. Breytingartillagan var felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni, en skömmu síðar ákvað ríkisstjórnin samt sem áður að hrinda áætluninni í framkvæmd. Í kjölfarið fylgdi blóðug ofbeldisherferð gegn hvítum bændum og fjölskyldum þeirra, sem flestar voru gerðar útlægar. Landbúnaður á býlunum hefur að mestu lagst niður.

Afleiðingarnar hafa verið hörmulegar. Þetta auðuga ríki, sem áður var stærsti útflytjandi Afríku á landbúnaðarvörum er nú háð matargjöfum frá öðrum þjóðum, íbúar þess lifa við hungurmörk og lífslíkur hafa hrunið niður fyrir fertugt.

Landsmenn hafa nú loks lýst skoðun sinni á alræðisstjórn Mugabes í nýafstöðnum kosningum, rétt eins og íbúar ríkja sem búa við harðstjórn gera gjarnan þegar þeim er nóg boðið. Stjórnarflokkur Mugabes hefur þegar viðurkennt ósigur í þingkosningum en Mugabe sjálfur virðist ætla að hanga á stjórnartaumunum þar til þeir verða af honum teknir. Vonandi gerist það áður en forræðishyggja hans hefur gert út af við Simbabve.