Laugardagur 26. apríl 2008

117. tbl. 12. árg.
Ég tel að þessi hugmynd sé allrar athygli verð, en hafa verður í huga að íslensku lífeyrissjóðirnir gegna að mörgu leyti sama hlutverki og olíusjóðurinn norski.
– Geir H. Haarde í Morgunblaðinu í gær um hugmyndir Björgólfs Guðmundssonar formanns bankaráðs Landsbankans um þjóðarsjóð.

Þ að er rétt sem forsætisráðherra bendir á að Íslendingar safna öðrum þjóðum meira í lífeyrissjóði. Þar við bætist að ríkissjóður Íslands er nær skuldlaus og hefur því talsvert svigrúm af þeim sökum verði „Ísland“ fyrir áföllum í efnahagsmálum.

Forsætisráðherra viðraði raunar hugmyndir um sjóð af þessu tagi þegar hann var fjármálaráðherra fyrr á árum. Fjármálaráðherrann og ríkisstjórnir hans fóru hins vegar þá leið að lækka skatta og greiða niður skuldir. Það var auðvitað hin eðlilega leið. Ef ríkissjóður á fé aflögu á hann að skila því til upphaflegra eigenda með skattalækkunum. Hinn almenni borgari getur þá sjálfur safnað í sjóði til að mæta áföllum. Það er á allan hátt skynsamlegra en að ríkið stofni verðbréfasjóð sem leikur lausum hala á mörkuðum, líkt og norski olíusjóðurinn gerir.

Lífeyrissjóðirnir eru heldur ekki eini sjóður Íslendinga. Það er greitt tryggingagjald af öllum launum og hluti þess rennur í atvinnuleysistryggingasjóð. Þessi sjóður varð skyndilega mjög digur um síðustu aldamót þegar íslenskt efnahagslíf tók mikinn kipp og atvinnuleysi hvarf að mestu. Það var ekki að sökum að spyrja. Hluti skattsins, sem átti að renna í sjóð til að verja menn fyrir atvinnuleysisbölinu, var látinn renna í fæðingarorlofssjóð sem greiddi jafnt auðkýfingum sem láglaunafólki 80% launa fyrir að vera heima með börnum sínum.

Auðvitað er hætt við eða öllu heldur víst að þannig færi á endanum fyrir þjóðarsjóðnum. Hann yrði hafður til alls kyns brúks, ekki síst þegar vel áraði. Stjórnmálamenn hafa aldrei þolað góða daga.