Föstudagur 25. apríl 2008

116. tbl. 12. árg.
Hvað er það Atli, í raun og veru, sem rekur á eftir óskum um allar þessar virkjanir vatnsfalla okkar?
Æ ég veit ekki hvað ég á að segja, þetta er erfið spurning. Þetta er, þetta er, ég vildi ég gæti svarað þessu, þetta væri græðgi, eftirsókn eftir auði, skammtímagróði og skammtímahugsun sem einkennir allan þennan málaflokk.
– Jónas Jónasson ræðir við Atla Gíslason, alþingismann vinstrigrænna, í Ríkisútvarpinu 18. apríl 2008.

Þ annig er þetta nú. Þeir sem hafa barist fyrir uppbyggingu stóriðju og þá þeirri virkjun sem nauðsynleg hefur verið fyrir þessa sömu stóriðju, hafa gert það af græðgi. Það er eftirsóknin eftir skammtímagróða sem rekið hefur gírugt fólk áfram.
En hverjir eru það sem hafa barist fyrir stóriðju og virkjanaframkvæmdum? Og hverjir eru það sem hafa notið góðs af uppbyggingunni sem þeim hefur fylgt? Jú það er mikill fjöldi fólks, ekki síst á landsbyggðinni, sem nú hefur fengið nýja möguleika á vel launaðri vinnu í sinni heimabyggð. Stóriðja er einn eftirsóttasti vinnustaður á Íslandi, gefur vel launuð störf sem starfsfólk vill ekki fyrir nokkurn mun missa. Og á Austurlandi hefur stóriðjan gerbreytt lífskjörum fólks. Fjölmargir fá vinnu í stóriðjunni, aðrir njóta góðs af umsvifunum sem þessu öllu hafa fylgt. Fjölgun íbúa og fjöldi nýrra vel launaðra starfa hefur skapað möguleika á alls kyns rekstri og afþreyingu sem fjöldinn nýtur góðs af. Og þá hafa fasteignir fólks hækkað í verði. Þeir sem áður áttu verðlitlar eða óseljanlegar eignir eiga nú hús á eftirsóttum stað.

Þetta er fólkið sem barðist fyrir stóriðju og nýtur nú gerbreyttra lífskjara. En fínn alþingismaður í Reykjavík sakar það bara um græðgi og eftirsókn eftir auði.

Hvaða Íslendingur hefur rakað saman auði vegna stóriðjuframkvæmdanna? Hver hefur barist fyrir álveri eða virkjun af „græðgi“? Getur Atli Gíslason upplýst það eða er hann önnum kafinn við að fægja fílabeinið í þeim turni þar sem hann situr og dæmir gráðuga samlanda sína?