Fimmtudagur 24. apríl 2008

115. tbl. 12. árg.

A l Gore fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og áhugamaður um loftslagsbreytingar heiðraði Íslendinga nýlega með nærveru sinni. Forseti Íslands sagði Gore vera „dásamlega manneskju“ og lofaði hann fyrir hugrekki, greind og stjórnvisku. Aðeins.

Á blaðamannafundi á Bessastöðum fagnaði Gore ákaft frumkvæði Íslendinga til lausnar loftslagsvandanum. Því það sé mikið í húfi. Útblástur mannsins á gróðurhúsalofttegundum, til dæmis vegna aksturs, hitunar húsa og matvælaframleiðslu, telur Gore jafnast á við uppgang nasismans. Aðeins.

Hann tjáði íslenskum blaðamönnum jafnframt að hann skammaðist sín fyrir framgöngu ríkisstjórnar Bandaríkjanna í loftslagsmálum.

Eini mælikvarðinn sem lagður er á stöðu einstakra ríkja í loftslagsmálum er útblástur gróðurhúsalofttegunda og hvernig hann breytist ár frá ári. Í fyrradag birti umhverfisstofnun tölur um þróunina á Íslandi frá árinu 2005 til 2006. Þær sýna að útblástur Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum jókst um 14% milli þessara ára. Hver ætli aukningin hafi þá verið í Bandaríkjunum á sama tíma? Þegar það er haft í huga að Gore hrósar Íslendingum en skammast sín fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna í þessum efnum hljóta Bandaríkjamenn að hafa aukið útblásturinn langt umfram þessi 14%.

Nei reyndar minnkaði útblásturinn í Bandaríkjunum milli þessara ára um rúmt 1% samkvæmt tölum frá umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna. Milli áranna 1990 og 2006 jókst útblásturinn í Bandaríkjunum um 14,7%. Það tók Bandaríkjamenn 16 ár að auka útblásturinn jafn mikið og Íslendingar gerðu á einu ári. Öll sú aukning varð áður en núverandi stjórn George W. Bush komst til valda árið 2001. Það er að segja að mestu leyti í tíð ríkisstjórna Clintons og títtnefnds Gores.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegs sumars.