Þriðjudagur 22. apríl 2008

113. tbl. 12. árg.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir tilkynnti í síðustu viku að hún hefði fengið tvo fyrrverandi hæstaréttardómara til þess að „yfirfara og kanna atvik varðandi sprengjuárás á íslenska friðargæsluliða í Kabúl í október 2004.“

Af því litla tilefni langar Vefþjóðviljann að spyrja: Er ekki alveg öruggt að dómurunum fyrrverandi verður ekkert greitt fyrir þessa vinnu sína?

Raunar þarf varla að spyrja. Ingibjörg Sólrún gerir vitaskuld ekki ráð fyrir því að neitt verði greitt sérstaklega fyrir þessa vinnu. Það er ekki aðeins svo, að dómararnir fyrrverandi eru báðir komnir á eftirlaun, heldur vill svo til að um hæstaréttardómara gilda alveg einstök eftirlaunakjör, en þeir halda óskertum launum til æviloka eftir að þeir láta af embætti með hefðbundnum hætti. Og allir vita að það er heilagt atriði hjá Samfylkingunni að fyrrverandi embættismenn geti ekki á sama tíma gegnt einu launuðu starfi og verið á sínum áunnu eftirlaunum. En til að enginn misskilningur sé, þá má spyrja Ingibjörgu Sólrúnu:

1. Er gert ráð fyrir því að fyrrverandi dómararnir tveir, sem báðir njóta nú lögmæltra eftirlauna, fái greitt fyrir hið nýja verkefni sitt á sama tíma og þeir fá greidd áunnin eftirlaun sín?

2. Telur Samfylkingin rétt eða rangt að fyrrverandi embættismaður, sem unnið hefur sér inn eftirlaunarétt, geti á sama tíma notið eftirlauna úr einu starfi og þegið laun fyrir nýtt starf sem hann hefur tekið að sér?

Það er svo augljóst að Ingibjörg Sólrún ætlar ekkert að greiða fyrir þetta verk, að það hefur enginn fjölmiðill spurt hana um þetta. Og enginn þingmaður.

R aunar hefur umræða um eftirlaun opinberra embættismanna verið ákaflega lýðskrumsleg undanfarin misseri. Þannig er það áratugagömul regla, en ekkert nýmæli, að ríkisstarfsmenn, sem unnið hafa sér inn eftirlaunarétt, geta nýtt sér þann rétt sinn þó þeir taki við öðru starfi síðar. Það er heldur ekkert að því – og gagnstæð niðurstaða yrði einfaldlega til þess að starfskröftum yrði kastað á glæ þar sem eftirlaunafólk yrði kannski ekkert sérstaklega áfjátt í að vinna kauplaust. Og um eftirlaunaæsinginn er fleira að segja: Kjör manna eru yfirleitt samsett af ýmsum þáttum. Samningsbundin laun eru stærsti hlutinn hjá flestum. Hjá mjög mörgum bætast við ólík atriði eins og til dæmis aukavinna, fæðispeningar, fatastyrkur, kaupréttarsamningar, bílastyrkur, eftirlaunaréttur, uppsagnarfrestur, réttur til að njóta sérkjara í viðskiptum við vinnuveitandann og svo framvegis og svo framvegis. Fáir munu halda því fram núorðið, að það sé grundvallarkrafa að kjör ólíkra stétta séu eins. En einhverra hluta vegna heyrist því stundum haldið fram að það sé sérstakt réttlætismál að opinberir starfsmenn hafi sama lífeyrisrétt og aðrir launþegar í landinu. Hvers vegna er það? Ekki krefjast menn þess að allir opinberir starfsmenn njóti sömu launa og allir aðrir. Hvers vegna eru menn skyndilega farnir að láta eins og þessi eini tiltekni þáttur í kjörum verði að vera jafn hjá opinberum starfsmönnum og öðrum? Verður næst gerð sú krafa að starfsfólkið í Nóatúni fái ekki starfsmannaafslátt ef það kaupir í matinn á eigin vinnustað?

Fyrrverandi lagaprófessor, sem kominn var á eftirlaun, var nýlega ráðinn prófessor við einkarekinn háskóla. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvernig kjörum hans er háttað en þykir mönnum kannski ástæða til að svipta manninn eftirlaunum sínum sem hann hafði unnið sér inn við ríkisháskólann? Líklega ekki, því aldrei er hann spurður um eftirlaun sín þó sumir fjölmiðlar hafi, að minnsta kosti um tíma, haft mikinn áhuga á því hvort fyrrverandi stjórnmálamenn nytu í senn eftirlauna og launa fyrir ný störf. Fréttastjóri Ríkisútvarpsins hætti störfum og var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Hefðu menn vilja svipta hann eftirlaunarétti frá Ríkisútvarpinu á meðan hann var ritstjóri? Nei, er ekki einmitt fagnaðarefni, almennt séð, að þeir sem lokið hafa embættisferli en telja sig enn hafa starfsþrek, geti fundið störf við hæfi en leggist ekki í kör? Þarf endilega að vera með stóryrði um „eftirlaunaósóma“ út af slíkum hlutum?