Mánudagur 21. apríl 2008

112. tbl. 12. árg.

S amkeppniseftirlitið hefur ákveðið að Orkuveitu Reykjavíkur (OR) beri að selja 16% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja (HS). Kaup OR á þessum hlut í HS eru eitt af furðuverkum þeirra stjórna OR sem komu REI-málunum á koppinn á síðasta ári.

Samkeppniseftirlitið hefur um leið bannað OR að kaupa 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS. Síðasta sumar bauð OR Hafnfirðingum að kaupa hlutinn fyrir tæpa 8 milljarða króna. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur vakið athygli á því að undanförnu hvernig meirihluti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar dró OR á svörum mánuðum saman. Sá dráttur kann að hafa kostað Hafnfirðinga milljarða króna og um leið losað OR undan því að sitja nú uppi með 31% hlut í HS sem verður að selja samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið gefur OR ákveðinn frest til að selja hlut sinn í HS en hann er trúnaðarmál. Það verður áhugavert að sjá hvernig væntanlegum kaupendum gengur að fjármagna kaup af OR í því árferði sem er á lánamörkuðum. Verðið sem OR fær verður ekki síður áhugavert.

Einkafyrirtækið Geysir Green á nær þriðjung í HS. Samkvæmt nýju frumvarpi iðnaðarráðherra verður einkafyrirtækjum bannað að eiga meira en þriðjung í orkufyrirtækjum sem starfa í skjóli einkaleyfis á dreifingu. HS dreifir orku og fellur því undir þessa skilgreiningu. Á meðan menn skipta HS ekki upp í tvö fyrirtæki er því ljóst að OR getur ekki selt einkaaðilum hlut sinn í HS.

Í lánsfjárkreppu og með bann við sölu til einkaaðila á leiðinni í gegnum þingið gæti OR hæglega fengið nokkurn skell af þessari þvinguðu sölu.