Helgarsprokið 20. apríl 2008

111. tbl. 12. árg.
E itt skemmtilegasta tímarit Bandaríkjanna er Reason, sem frjálshyggjumaðurinn Robert Poole stofnaði árið 1968 og var síðar um langt árabil undir frábærri ritstjórn Virginíu Postrel. Virginía hefur síðan skrifað tvær bækur, aðra um framtíðina og óvini hennar og hina um nokkuð nýstárlega sýn hennar á fagurfræði og stíl. Auk þess hefur hún skrifað ótal greinar og margar þeirra er einmitt að finna á vefsíðu hennar dynamist.com.

„Með því að banna viðskipti með líffæri með lögum eins og þeir Harry Waxman og Al Gore höfðu forystu um, eru búnir til biðlistar þar sem engir biðlistar ættu að vera og viðskiptum með líffæri ýtt út á svarta markaðinn með hræðilegum afleiðingum. Rétt eins og svo margt annað sem bannað er með lögum og endar því á svarta markaðnum með hörmulegum afleiðingum fyrir alla nema þá sterkustu.“

Einn þeirra sem leggja þessu skemmtilega tímariti lið er leikarinn og uppistandarinn Drew Carey sem margir þekkja úr sjónvarpi hér á landi. Carey hefur útbúið einkar athyglisverða þáttaröð fyrir vefsjónvarpsútgáfu Reason undir nafninu The Drew Carey Project. Í einum þessara þátta tekur hann meðal annars viðtal við Virginíu, fyrrverandi ritsjóra Reason. Og þó frjálshyggjumenn séu kannski stöku sinnum svolítið sjálfhverfir þá fjallar þátturinn ekki um frjálshyggjukarl sem tekur viðtal við frjálshyggjukonu sem er fyrrverandi ritstjóri frjálshyggjutímarits. Nei, Drew tók viðtalið við Virginíu vegna eins af hennar nýjustu uppátækjum ef svo mætti kalla og þess vandamáls sem henni tókst að leysa fyrir eina manneskju en Virginía heldur að væri hægt að leysa fyrir miklu fleiri með hjálp frjáls markaðar.

Þannig er að fyrir rúmum tveimur árum heyrði Virginía af kunningjakonu sinni, Sally, sem vantaði nýra. Þremur dögum síðar skrifaði Virginía þessari kunningjakonu sinni, sem hún þekkti reyndar ekki náið, tölvupóst með yfirskriftinni: Tilboð í alvöru. Í tölvupóstinum sagðist Virginía hafa frétt að hana vantaði nýra og bauðst til að gefa henni annað nýra sitt ef í ljós kæmi að hún væri hentugur nýrnagjafi. Á daginn kom að Virginía var í raun hentugur nýrnagjafi og árið 2006 fóru þær saman í aðgerð, hún og Sally, þar sem hægra nýrað var numið úr Virginíu og grætt í Sally.

Saga þeirra Virginíu og Sally er ekkert einsdæmi. Út um allan heim er allskonar fólk að drýgja samskonar hetjudáðir og Virginía en hetjudáð er það engu að síður og engu minni þó margir drýgi þær. Vandinn er sá að hetjurnar eru ekki nógu margar og hver þeirra getur bara drýgt dáð sína einu sinni. Þær er svo miklu færri en þau sem þurfa hetjanna við. Og þau sem deyja en skilja eftir sig nothæf nýru eru heldur ekki nógu mörg til að öll þau sem þurfa nýru geti fengið. Út um allan heim eru því biðlistar eftir nýrum frá nýrnagjöfum, látnum eða lifandi. Í flestum tilvikum snýst tilvera fólksins á biðlistunum um að jafna sig eftir síðustu blóðskiljun eða þá að vera í blóðskiljun sem oftast eru nokkrar á viku, nokkra klukkutíma í senn. Svo ekki sé minnst á kapphlaupið við tímann, vonina um að einhver fáist til að gefa nýra í tæka tíð, áður en það er um seinan.

Saga þeirra Virginíu og Sally er ekki bara hetjusaga, hún er ekki síður saga um ótrúlega heppni. Í fyrsta lagi er það fyrir nær einskæra tilviljun sem Virginía fréttir af sjúkdómi kunningja konu sinnar. Þær höfðu ekki hist nema fimm eða sex sinnum. Í öðru lagi þá vill svo til að Virginía er þannig innrætt að hún vill gefa annað nýra sitt, jafnvel einhverjum sem hún er ekki nákomin og er tilbúin að leggja á sig allt það umstang sem því fylgir. Í þriðja lagi þá hittist svo ótrúlega á að Virginía er heppilegur nýrnagjafi fyrir Sally.

Sally var því ótrúlega heppin, fæstir eru jafn heppnir og hún. Flestir bíða eftir því að náskyldur ættingi geti eða vilji gefið og ef því er ekki að heilsa þá tekur við biðin eftir því að einhver sem er nýdáinn hafi nothæft nýra og ættingjar leyfi að það sé gefið eða þá biðin eftir því sem er enn ólíklegra, að hetja eins og Virginía birtist allt í einu og sú hetja sé þar að auki með auka nýra sem passar.

Virginía hefur sjálf ákveðna skoðun á því hvernig eigi að leysa vanda þeirra sem eru á biðlistanum. Einfaldasta leiðin segir hún, er sú að fella úr gildi alríkislögin í Bandaríkjunum sem banna kaup og sölu á líffærum. Árið 1983, lagði læknir nokkur, Barry Jacobs að nafni, það til opinberlega að Bandaríkjastjórn myndi stofna sjóð til að greiða ættingjum látinna líffæragjafa. Barry Jacobs lagði enn fremur til að komið yrði á fót fyrirtæki sem myndi kaupa líffæri frá lifandi líffæragjöfum til ígræðslu í bandaríska sjúklinga. Í framhaldi af þessu var frumvarpi um líffæragjafir flýtt í gegnum þingið, undir forystu þingmannanna Henry Waxman og Al Gore þar sem öll verslun með líffæri úr látnum sem lifandi líffæragjöfum var bönnuð. Frumvarpið varð að lögum árið 1984. Árið 2001 voru um 75.000 manns á biðlista eftir líffæri í Bandríkjunum, þar af um 48.000 sem biðu eftir nýra. Í aðeins einu landi í heiminum er löglegt að greiða fyrir líffæri og greiðslur til líffæragjafa eru uppi á borðinu. Í þessu landi er enginn á biðlista eftir nýra þó fólk bíði reyndar eftir ýmsu öðru í Íran.

Virginía bendir á, máli sínu til stuðnings, að allir sem komi að líffæraígræðslu fái greitt fyrir en enginn líti svo á að verk þeirra séu ómerkilegri eða siðferðilega röng fyrir vikið. Læknirinn sem annast sjúklinginn fyrir ígræðsluna fær greitt fyrir sína vinnu. Læknirinn sem annast ígræðsluna fær greitt, hjúkrunarfræðingarnir fá greitt, lyfjaframleiðandinn fær greitt, ræstingafólkið fær greitt og störf þeirra eru samt sem áður allrar virðingar verð. Sama ætti auðvitað að gilda um þann sem leggur fram líffærið, ætli viðkomandi ekki á annað borð að gefa það.

Þegar skortur er á eftirspurn er lausnin að lækka verð en þegar skortur er á framboði eins og í tilviki nýrnanna þá er lausnin að hækka verð. Það er vissulega göfugt að gefa öðrum líffæri, kannski eitt það göfugasta sem hægt er að hugsa sér, rétt eins og það er göfugt af hjúkrunarfólki og læknum að leggja fram sjálfboðavinnu til hjálpar sjúkum. En það er líka göfugt starf að vinna inni á sjúkrahúsi eða á læknastofu og hjálpa sjúkum þó fólk þiggi laun fyrir. Það sama gildir með að bjarga lifi einhvers með því að bjóða viðkomandi nýra þó greiðsla komi fyrir.

Með því að banna viðskipti með líffæri með lögum eins og þeir Harry Waxman og Al Gore höfðu forystu um eru búnir til biðlistar þar sem engir biðlistar ættu að vera og viðskiptum með líffæri ýtt út á svarta markaðinn með hræðilegum afleiðingum. Rétt eins og svo margt annað sem bannað er með lögum og endar því á svarta markaðnum með hörmulegum afleiðingum fyrir alla nema þá sterkustu.