Mánudagur 31. mars 2008

91. tbl. 12. árg.

S uður-Afríka hefur fengið sinn skammt af vandamálum í gegnum tíðina. Áratugum saman voru það helst neikvæðar fréttir sem bárust þaðan vegna mannréttindabrota, óeirða og vígaferla. Og þær fréttir sem berast helst frá landinu nú, snúast yfirleitt um mikla fátækt, háa glæpatíðni og gífurlegan vanda vegna alnæmis. Þótt vandamálin séu ærin í Suður-Afríku, býr alþýða manna þar þó við miklu betri lífskjör en íbúar nágrannaríkjanna í norðri; til dæmis Botswana, Simbabwe, Mósambík, Angóla og Kongó. Frá þessum löndum er stöðugur flóttamannastraumur til Suður-Afríku og margir af hinum fátækustu eru úr hópi þeirra sem nýlega hafa flúið norðan frá í von um atvinnu og betra líf. Efnahagur Suður-Afríku er sterkur og nágrannaríkin í norðri njóta góðs af honum með margvíslegum hætti. Mörg fátæk Afríkuríki hafa um áratugaskeið notið og treyst á peningasendingar frá brottfluttum þegnum sínum, sem fengið hafa atvinnu í Suður-Afríku og senda hluta launanna heim til fjölskyldna sinna.

Athyglisvert sjónarhorn á þjóðfélagsþróunina í Suður-Afríku síðustu áratugi er að finna í ævisögu viðskiptajöfursins Richard Ackerman, Hearing Grasshoppers Jump sem skráð er af Denise Prichard. Ackerman er 77 ára og hefur starfað að viðskiptum alla starfsævi sína. Við 35 ára aldur var honum sagt upp yfirmannsstarfi hjá stórri verslunarkeðju og festi hann þá kaup á fjórum litlum dagvöruverslunum undir nafninu Pick’n Pay í Höfðaborg. Fjórum áratugum síðar er Pick’n Pay orðin ein stærsta verslanakeðja Afríku með fjölda stórmarkaða og sérleyfisverslana auk umsvifa í öðrum löndum og heimsálfum.

Ackerman náði þessum árangri ekki án áreynslu. Alla tíð hefur hann sætt mótlæti vegna gyðinglegs uppruna síns, ekki einungis hjá hvítum mönnum innan Þjóðarflokksins, sem lengi hélt um valdatauma þar suður frá heldur einnig hjá stjórnendum verkalýðsfélaga svertingja. Hann varð þekktur vegna andstöðu sinnar við aðskilnaðarstefnuna í stjórnartíð hvítra manna, baráttu sinnar gegn reglugerðarfargani stjórnvalda, ýmsum hömlum gegn frjálsri samkeppni í viðskiptum og ofurvaldi verkalýðsfélaga. Þrátt fyrir volduga andstæðinga, tókst Ackerman að byggja upp eitt mesta viðskiptaveldi Afríku. Hvers vegna? Sennilega vegna þess að markaðurinn er litblindur. Suður-afrískir neytendur, sem kusu lægra vöruverð, þyrptust í verslanir Pick’n Pay án þess að velta því fyrir sér hvort eigandinn væri svartur eða hvítur, gyðingur eða aríi.

Óþarft er að fara um það mörgum orðum að uppbygging verslunarkeðju hefur varla verið dans á rósum í landi sem rambaði nokkrum sinnum á barmi borgarastyrjaldar. Viðskiptalífið í Suður-Afríku hefur ekki farið varhluta af þeim átökum og togstreitu sem ríkt hefur í landinu undanfarna áratugi. Ackerman var ávallt í hópi andstæðinga aðskilnaðarstefnunnar og var á þeirri skoðun að hún stæðist ekki til lengdar. Þá átti Ackerman í stöðugum deilum við stjórnvöld vegna verðstýringar og annarra hamla sem lengst af voru settar á viðskipti með vörur í landinu. Ackerman var ófeiminn við að benda á að opinberar eftirlitsstofnanir hefðu of mikil völd og ynnu í raun gegn hagsmunum neytenda þar sem langvarandi afskipti þeirra auðvelduðu fákeppnis- og einokunarhringjum að stýra verðmyndun á markaði. Stöðugar deilur við stjórnvöld um afskipti opinberra eftirlitsstofnana um verðmyndun á brauði, ostum og eggjum tóku sinn toll en skiluðu Ackerman jafnframt miklum vinsældum – viðskiptum – meðal neytenda.

Blóðug átök á áttunda áratugnum sannfærðu Ackerman enn frekar um að friðsamleg lausn yrði að finnast á vandamálum Suður Afríku. Samtök voru stofnuð af Ackerman og fleiri stjórnendum úr atvinnulífinu og á vettvangi þeirra var rætt um vandamál landsins og tillögum beint til stjórnvalda um leiðir til að komast út úr vítahring aðskilnaðarstefnunnar. Ackerman taldi að til þess að frjáls markaður gæti blómstrað og lagt grundvöll að bættum lífskjörum, þyrftu allir kynþættir að vinna saman. Þótt það væri ekki gert í stjórnmálunum, væri hægt að gera það í viðskiptalífinu. Lögbundin aðskilnaðarstefna og frjáls markaður væru ósamrýmanlegar andstæður til lengdar og í andstöðu við alþjóðlega þróun. Hann var ætíð andvigur valdbeitingu til þess að ná þessum markmiðum fram en óþreytandi við að benda á að hið friðsamlega gangverk efnahagslífsins myndi um síðir ganga að aðskilnaðarstefnunni dauðri. Hann var einnig andvígur viðskiptabanni margra landa gagnvart Suður-Afríku og ferðaðist víða um heim til að mæla gegn því og biðja erlendar ríkisstjórnir um svigrúm fyrir suður-afrísku stjórnina og viðskiptalífið til að breyta landinu innan frá. Hann benti á að viðskiptaþvinganir myndu einungis auka á einangrun landsins á alþjóðavettvangi og koma þeim verst, sem þeim væri ætlað að hjálpa, svörtum íbúum landsins sem margir væru fátækir.

Suður-afrísk stjórnvöld áttu erfitt með að hundsa gagnrýni forkólfa úr atvinnulífinu og varð Ackerman einn helsti talsmaður andstæðinga aðskilnaðarstefnunnar. Smám saman jókst þeirri skoðun fylgi að stefna stjórnvalda væri komin í öngstræti og að breytingar væru nauðsynlegar. Margir frjálshuga menn, sem töldu að almennt ættu svartir menn að njóta fullra mannréttinda, óttuðust þó að breytingarnar gætu leitt til upplausnar og að allt færi jafnvel í bál og brand ef svertingjum yrði treyst fyrir stjórn landsins. Ekki verður framhjá því litið að Afríska þjóðarráðið (ANC), langöflugasta stjórnmálahreyfing svartra manna í Suður-Afríku hafði lengi þá stefnu að komið yrði á marxísku stjórnskipulagi í landinu. Menn spurðu: Til hvers að veita svertingjum full mannréttindi ef það verður einungis til þess að koma á sovésku þjóðskipulagi í landi okkar þar sem allir verða kúgaðir, svartir jafnt sem hvítir?

Eftir því sem dró úr mætti Sovétríkjanna á níunda áratugnum hættu leiðtogar ANC að líta til þeirra sem beinnar fyrirmyndar. Eftir að De Klerk, forseti Suður-Afríku, lýsti því yfir árið 1990 að endi yrði bundinn á aðskilnaðarstefnuna og jöfnu vægi atkvæða komið á, voru þó ýmsir svartir verkalýðs- og stjórnmálaleiðtogar fljótir að lýsa yfir því að fyrsta verk stjórnar ANC yrði að þjóðnýta öll helstu fyrirtæki landsins og hefja endurskiptingu gæða. Forysta ANC tók þó ekki undir þessar yfirlýsingar og á endanum gáfu samtökin út þá yfirlýsingu að þau stefndu ekki lengur að marxísku þjóðskipulagi í Suður Afríku. Varð þá ýmsum rórra. Á níunda áratugnum lagði Ackerman áherslu á að vera í sambandi við marga stjórnmálaleiðtoga úr hópi svertingja og eignaðist trúnað margra þeirra, meðal annars. Nelsons Mandela. Ljóst er að þessi tengsl skiptu máli þegar vegferðin til nýrra stjórnarhátta hófst og það varð sérstakt keppikefli nýrra stjórnarherra að halda fjárfestingu í landinu og sannfæra eigendur fyrirtækja um að þeim yrðu ekki sköpuð síðri starfskilyrði í hinni nýju Suður-Afríku en verið hefði á valdatíma hvítra manna. Ackerman er síður en svo laus við gagnrýni á nýja stjórnarherra en hann bendir á að það hafi raunar verið undir stjórn Afríska þjóðarráðsins sem nálega allar hömlur á frjálsa verðmyndun matvöru hafi verið afnumdar og það hafi skilað sér í gífurlegum ávinningi fyrir neytendur.

 Þær hrakspár hafa sem betur fer ekki ræst, að ríkisstjórn svartra manna í Suður-Afríku myndi á fáum árum glutra niður sterkum efnahag landsins með svipuðum hætti og gerst hefur í Simbabwe (áður Ródesíu) þar sem einmitt fóru fram kosningar nú um helgina. Afnám aðskilnaðarstefnunnar og valdaafsal hvítra manna 1990-1995 gekk vissulega ekki þrautalaust fyrir sig en í stórum dráttum gengu þær breytingar þó betur en flestir þorðu að vona. Erfitt er að spá fyrir um þróun mála í landinu en stjórnvöld virðast þó í aðalatriðum deila þeirri skoðun með Ackerman að frjálst markaðshagkerfi er besta leiðin til að efla efnahag landsins og koma sem flestum íbúum þess úr fátækt í bjargálnir.