Helgarsprokið 30. mars 2008

90. tbl. 12. árg.
The refusal to refer to God in the Constitution is not the expression of a tolerance that wishes to protect the nontheistic religions and the dignity of atheists and agnostics; rather, it is the expression of a consciousness that would like to see God eradicated once and for all from the public life of humanity and shut up in the subjective sphere of cultural residues from the past. In this way, relativism, which is the starting point of this whole process, becomes a dogmatism that believes itself in possession of the definitive knowledge of human reason, with the right to consider everything else merely as a stage in human history that is basically obsolete and deserves to be relativized. In reality, this means that we have need of roots if we are to survive and that we must not lose sight of God if we do not want human dignity to disappear.
– Benedictus XVI., L’Europa de Benedetto nella crisi delle culture, hér tekið úr enskri þýðingu ritsins, Christianity and the crises of cultures, bls. 44-45.

Þ egar þeir voru að klastra saman stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið var eitt fárra deilumála, sem rötuðu út úr samningahöllunum, það hvort Guð fengi inni í skránni. Kaþólsku löndin börðust fyrir því að þess yrði getið að kristnin kæmi við sögu Evrópu en voru auðvitað höfð undir. Ofaná urðu þeir sem töldu að slík ábending gæti móðgað einhverja og minntu í sífellu á að ekki væru allir Evrópubúar kristnir. Guðs var því ekki getið í þeirri stjórnarskrá sem rann eftirminnilega út í sandinn um leið og einhvers staðar var leyfð um hana opinber atkvæðagreiðsla. Evrópusambandsforystan ætlar auðvitað ekki að endurtaka þau mistök og nú verður stjórnarskránni laumað inn á aðildarríkin undir dulnefni og atkvæðagreiðslulaust í öllum löndum nema einu.

Ísland er auðvitað ekki aðili að Evrópusambandinu og ekkert sem bendir til þess að það breytist. Spurningin um það hvort vísa skuli til kristinnar arfleifðar í sáttmálum Evrópusambandsins kemur Íslendingum því ekki sérstaklega við. Þeir hafa hins vegar fengið smækkaða mynd af því álitaefni með frumvarpi menntamálaráðherra til nýrra grunnskólalaga þar sem, öfugt við stjórnarskrárdeilu Evrópusambandsins, ráðherrann er ekki að reyna að koma kristindómnum inn heldur út. Við yfirferð gildandi grunnskólalaga komst nefnilega upp, að snemma í lögunum, þar sem hlutverk grunnskólans er þulið mörgum orðum, standa þessi háskalegu orð:

Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.

Raunar var ekki á almannavitorði að þessi orð yllu sérstökum vandkvæðum, en sérfræðingar menntamálaráðuneytisins vissu betur. Í þessari hlutverksromsu leynast nefnilega orð sem slá miklum svita út á meðvituðum fjölmenningarmönnum og valda þar að auki líklega hjartsláttartruflunum hjá baráttumönnum fyrir trúleysi annarra. Menntamálaráðherra hefur í því frumvarpi sínu lagt til að þessari langloku verði breytt og í staðinn komi önnur, ekki lágfleygari. Nú skal standa:

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Nú dettur auðvitað fáum í hug, að froðusnakksgreinar eins og þessi hafi nokkra raunhæfa þýðingu í daglegu skólastarfi. „Starfshættir grunnskóla skulu mótast af ábyrgð og sáttfýsi“ er auðvitað innihaldslaust þvaður, eins og svona lagagreinar eru jafnan. Lagagreinar eins og þessar hafa á síðustu áratugum orðið algengar, framarlega í lagabálkum, og eru fyrst og fremst yfirlýsing höfunda laganna um að þeir sjálfir séu upplýstir og velmeinandi nútímamenn og lagasmíði þeirra sé eftir því fögur. En praktísk þýðing ákvæða sem þessara er sjaldan nokkur. Það er því eftirtektarvert þegar fram kemur stjórnarfrumvarp þar sem sérstaklega hefur verið tekinn á sig krókur til að breyta svona upptalningarákvæði – ekki til að bæta við jarmi heldur sérstaklega til að fjarlægja nokkur orð úr upptalningunni.

Og breytingartillagan er ekki gerð út í loftið. Í gildandi ákvæði eru nefnilega orð sem eru fyrir einhverjum. Menntamálaráðherra biður því Alþingi um að skera úr grunnskólalögunum þau orð að starfshættir grunnskóla skuli ásamt öllum hinum fagurgalanum einnig mótast af „kristnu siðgæði“. Ekki er þó ástæðan sú, að þetta orðalag í gildandi grunnskólalögum hafi orðið til ills – eða orðið til nokkurs hlutar yfirleitt, svo vitað sé – heldur er ástæðan sem gefin er upp í greinargerð með frumvarpinu sú, að nú þyki „rétt að tilgreina ekki beint kristilegt siðgæði í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum“ og um nánari skýringu á því að þetta þyki rétt og hverjum þyki það rétt, segir hvorki meira né minna en að þessi breyting sé „í samræmi við ábendingar frá ýmsum aðilum“, þó þeir aðilar séu því miður ekki skýrðir frekar.

Hér er rík ástæða til að staldra við. Veit menntamálaráðuneytið dæmi þess að gildandi orðalag grunnskólalaganna hafi orðið til tjóns? Fyrir hverjum var þetta orðalag og hvers vegna? Kristinfræðikennsla í skólum er ekki komin til vegna þessa ákvæðis heldur vegna hlutar kristninnar í íslenskum menningararfi. Og þó ekki séu allir nemendur, eða kannski öllu heldur: ekki séu foreldrar allra nemenda kristnir, hvað með það? Dettur kannski einhverjum í hug að ekki megi annað finnast í skólastarfi en það sem foreldrar allra nemenda skrifa undir? Má kannski vænta þess að áróðri um hlýnun jarðar og nauðsyn fíkniefnabanns verði þegar í stað úthýst úr opinberum skólum – í nafni skoðanafrelsis – svona ef að kristið siðgæði má ekki heyrast nefnt fyrir trúleysingjum? Verða menn ekki að sætta sig við, að opinberir skólar kenni sitt af hverju sem einstakir foreldrar kynnu að vilja að börnin þeirra heyrðu ekki?

Og er með síðastri þessara spurninga ekki komið að kjarna annars máls? Það mun seint geta farið hjá því að skóli kenni eða kynni eitthvað sem einstakir foreldrar vilja halda frá börnum sínum. Er ekki mun nær að auka valfrelsi foreldra með því að ýtt sé undir að einkaaðilar reki skóla og keppist þar um að bjóða börnum nám sem foreldrar þeirra telja eftirsóknarvert? Af hverju ekki að ýta einfaldlega undir það að ólíkir „ýmsir aðilar“ reki ólíka skóla? Af hverju þurfa til dæmis þeir foreldrar, sem vilja að börn sín fái góða þekkingu á undirstöðu kristindóms, að notast við sama skóla og þeir foreldrar sem telja börnum sínum fyrir bestu að heyra aldrei á hann minnst? Og svo framvegis. Það á að auka valfrelsi foreldra en spara sér áhyggjur af saklausum orðum í upptalningum sem enginn les nema lúsaleitarmaður í herferð.

Á Vesturlöndum er víðar og víðar sótt fram gegn þeim gildum sem þar hafa ráðið ríkjum undanfarið. Ótalmargir vilja gefa eftir vestræn grundvallargildi og telja sig þar sýna umburðarlyndi sitt og þroska. Sú þróun er stórhættuleg. Það er auðvitað ekkert úrslitaatriði um frelsi og mannréttindi í Vestur-Evrópu hvort kontóristar menntamálaráðuneytisins ná þýðingarlitlum orðum út úr grunnskólalögunum. En það segir hins vegar talsverða sögu að þeir séu að reyna. Og það, hvernig alþingismenn munu bregðast við því, mun einnig segja svolitla sögu. Sögu sem kannski verður eins og viðbótarkafli við söguna af biblíuþýðingunni nýju, en þar voru gerðar ótal breytingar á orðalagi sem ekki hafði aðeins átt sinn sess í biblíunni sjálfri um aldir, heldur var þaðan komið inn í íslenska menningu til sjálfstæðs lífs. Er hér ekki átt við breytingar sem sagðar voru gerðar vegna nýs þýðingarfróðleiks og meiri þekkingar á fornmálum, heldur ótal breytingar sem voru, eins og breytingartillagan á grunnskólalögunum, gerðar vegna ábendinga „ýmissa aðila“. Það er að verða býsna vinsæl herstjórnarlist meðal þeirra sem ráða málum í dag, að gefa eftir fyrir fulltrúum ýmissa aðila – en sjálfsagt er þess nú örskammt að bíða að kirkjur landsins fyllist af þeim jarðnesku herskörum fólks sem hafði hingað til hafði ekki treyst sér þangað vegna karllægu ávarpanna hjá Páli.