Laugardagur 29. mars 2008

89. tbl. 12. árg.

Þ egar olía hækkar í verði hækka tekjur ríkisins af bíleigendum þótt stór hluti olíuskattanna sé föst krónutala. Líklega væri bensínlítrinn kominn í um 200 krónur ef gjöldunum hefði ekki verið breytt fyrir nokkrum árum úr hlutfallsgjöldum í föst. Vefþjóðviljinn hefur aldrei verið hrifinn af sértækri skattheimtu sem þessari. Hún skilar sér heldur ekki nema að litlu leyti til vegagerðar sem þó hefur verið sögð ástæðan fyrir henni. Á næstunni verður svo að nokkrum líkindum farið að færa „græn“ rök fyrir skattheimtu af eldsneyti.

Með hinum háu gjöldum á bíla og eldsneyti er ríkið að leggja stein í götu þeirra sem þurfa að komast leiðar sinnar, ekki síst hinna efnaminni sem hafa bara ekki efni á bíl vegna skattanna.

Hópur vörubílstjóra ákvað í vikunni að mótmæla þessum háu sköttum. Var það frumlegt og snjallt hjá þeim að gera það með því leggja fleiri steina í götu vegfarenda? Þeir tóku sér í raun stöðu með ríkinu gegn hinum almenna vegfaranda. Undarlega leið til að afla málstað fylgis.

Aðgerðir á borð við þær að stöðva umferð með vörubílum, hlekkja sig við byggingakrana og stöðva fundi borgarstjórnar með skrílslátum má setja undir einn hatt. Menn eiga sér kannski sinn heilagan málstað en í öllum þessum tilfellum brjóta menn á rétti annarra með „mótmælaaðgerðum“ sínum. Fólkið sem sat fast í bílunum í vikunni var órétti beitt af vörubílstjórnum og hafði ekkert gert á þeirra hlut til að verðskulda það. Verktakar sem verða fyrir barðinu á græningjum hafa ekki tekið neina ákvörðun sem réttlætir að reiði græningja sé beint að þeim. Þeir sem æptu og góluðu á fundi borgarstjórnar svo ekki var hægt að skipta um stjórn í borginni tóku völdin af lýðræðislega kjörnum meirihluta borgarstjórnar.