Föstudagur 28. mars 2008

88. tbl. 12. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn vék að í gær þá hafa stjórnvöld mælst til þess að menn haldi að sér höndum um þessar mundir. Og líklega þarf ekki að segja mönnum það tvisvar á meðan vextir eru himinháir og íslenska krónan fellur í verði, jafnt gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem mjólk úr spena hins íslenska kúakyns.

En þótt almenningur eigi að hafa sig hægan er ekki þar með sagt að hið opinbera þurfi að herða sultarólina. Voru ekki ríkisútgjöldin aukin um 63 milljarða frá fjárlögum 2007 til fjárlagafrumvarps 2008? Það er 17% hækkun á milli ára og svo á vafalítið eitthvað eftir að bætast við því fjárlögin standast nær aldrei hvað útgjöldin varðar, þau eru alltaf meiri en lögin segja til um.

Ríkið rekur líka einokunarverslun með áfengi og bannar íslenskum einkaaðilum að selja landsmönnum áfengi í lokuðum umbúðum. Menn geta hins vegar pantað áfengi frá erlendum verslunum í einkaeign og fengið sent heim að dyrum og tollafgreitt af Íslandspósti eins og hverja aðra bók. Ríkið bannar mönnum líka að auglýsa áfengi en það kemur ekki í veg fyrir að einokunarverslun ríkisins með áfengi gefi út bæklinga og tímarit um áfengi.

Í fjölmiðlum að undanförnu hefur mátt sjá auglýsingu sem þessa hér til hliðar þar sem ríkið býður mönnum faglega ráðgjöf við val á víni. Í þeim tilgangi hefur hið opinbera sett á legg vaska sveit „vínráðgjafa“ sem er til taks í vínbúðunum ef viðskiptavinir eru í vandræðum með að velja réttu flöskuna.

Og af því að ríkið er nýbúið að herða jafnréttislögin og skipa mönnum að hafa nú jafnt hlutfall kynjanna hvarvetna þá eru greinilega þrjár konur og þrír karlar í hinum nýja sex manna flokki vínsmakkara ríkisins. Það kannski lítur öðruvísi út á myndinni en ekki er allt sem sýnist. Jafnréttislögin segja með mjög skýrum hætti að á myndinni séu þrír karlar og þrjár konur.