Fimmtudagur 27. mars 2008

87. tbl. 12. árg.

J á nú er ljóst að allir verða að sýna ábyrgð og aðhald. Fara varlega, segja ráðherrarnir, halda að sér höndum.

Hvað ætli það standi annars margar vikur að fréttir berist daglega af ráðningu nýrra aðstoðarmanna þingmanna? Tónlistarhúsið rís með ógnarhraða og til landsins munu víst streyma mörg hundruð Kínverjar sem eiga að skreyta húsið með sérsmíðuðum glerkubbum. Fara varlega. Halda að sér höndum. Er ekki alveg örugglega einhver ráðherra eða forstöðumaður ríkisstofnunar að draga úr flandri um heiminn? Hvers vegna fylgja fjölmiðlar ekki einhverjum af hinum óteljandi sendinefndum íslenska ríkisins og sveitarfélaga til útlanda og segja frá tilgangsleysinu og bullinu sem skattgreiðendur eru látnir greiða fyrir? Það líður vart sá dagur að ekki berist fréttir af ráðherrum og embættismönnum á faraldsfæti á kostnað skattgreiðendanna, sömu skattgreiðenda og eiga að fara varlega.

Það er stundum sagt að menn séu að eltast við tittlingaskít þegar ferðakostnaður, bílakostnaður eða risna og óskilgreint skúffufé ráðuneyta er gagnrýnt. En það er merkilegt að þetta sama er yfirleitt ekki kallað smámál í einkafyrirtækjum, menn leggja ýmislegt á sig til að halda utan um þetta og stilla í hóf.