Miðvikudagur 26. mars 2008

86. tbl. 12. árg.

Í frétt á vef Viðskiptablaðsins í gær kom fram að Japan telur að árið 2005 væri „sanngjarnt“ grunnár til að miða við í útblæstri gróðurhúsalofttegunda.  Japan hefur hafnað því að halda árinu 1990 sem viðmiðunarári fyrir niðurskurð útblásturs í samningi sem tæki við eftir að Kýótó-samningurinn fellur úr gildi árið 2012. Japan telur að árið 1990 sé ósanngjarnt gagnvart japönskum iðnaði sem hafi fjárfest í orkusparandi tækni fyrir tveimur áratugum. Í fréttinni kemur jafnframt fram að Evrópusambandið muni mótmæla slíkum hugmyndum um breytingar á viðmiðunarári.

Á Íslandi var að mestu hætt að hita hús með olíu fyrir nokkrum áratugum og fáar ef nokkrar þjóðir nota jafn lágt hlutfall jarðarefnaeldsneytis til orkugjafar og Íslendingar.

Ríki Austur-Evrópu og fyrrum Sovétríkja hafa hins vegar augljósa hagsmuni af því að miða við 1990. Við hrun kommúnismans hrundi hinn mengandi ríkisrekni iðnaður þessara landa. Þau hafa því flest staðið sig ljómandi vel í umhverfismálum á mælikvarða Kyoto samningsins. Evrópusambandið nýtur góðs af þessu því nokkur ríki Austur-Evrópu eru komin þar um borð. Þjóðverjar þykja flottir fyrir það eitt að Múrinn féll og um leið mengunin í Austur-Þýskalandi.

Það er því afskaplega misjafnt hvað hentar ríkjum sem viðmiðunarár útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Þar við bætist að það er misjafn gangur í efnahagslífi landa. Í Evrópusambandinu er lítil fólksfjölgun, atvinnuleysi og stöðnun. Í slíku ástandi er lítil hætta á að orkunotkun og útblástur gróðurhúsalofttegunda aukist. Væri ekki nær að líta á hvernig ríki standa sig í þessum efnum miðað við hagvöxt og fólksfjölgun? Skiptir ekki líka máli hvort fleira fólk búi við betri kjör?