Þriðjudagur 25. mars 2008

85. tbl. 12. árg.

E ins og menn kynnast jafnan á þessum tíma árs leggur ríkið ýmsar spurningar fyrir hinn almenna mann. Hvað varstu duglegur að vinna á síðasta ári vinurinn? Hvað fékkstu í laun? Varstu kannski á sjó? Nú þá greiðirðu aðeins lægri skatt. Græddirðu eitthvað á hlutabréfum? Ekki það nei. Skíttapaðir á þeim? Nú þá kemurðu okkur ekki við. Áttu bíl? Verðbréf? Íbúð? Börn? Hvað skuldarðu mikið? Ef þú gefur það ekki upp færðu ekki vaxtabætur. Fékkstu lottóvinning?

Flestir eyða að minnsta kosti einum degi á ári í þetta spurningaflóð ríkisins. Gaman að hugsa til þess að það séu tveir til þrír mánuðir af ævinni sem fara í þetta áður en yfir lýkur.

En ríkið ber upp fleiri spurningar? Til dæmis rekur það verslun á Keflavíkurflugvelli. Þar eru ferðalangar spurðir á stóru skilti hvort þeir séu nú að „nýta tollinn“. Þetta er sama ríki og rekur áfengisvarnarráð og lýðheilsustöð. Svo spyr það á stóru auglýsingaskilti: Ætlarðu að missa af því að fá þér brennsa og líkkjör án skatta? Eða Vodka og tvær kippur? Eða þrjár léttvínsflöskur? A, B, C eða D?