Laugardagur 22. mars 2008

82. tbl. 12. árg.

H ann er eintóna efnahagsmálakórinn, snemma í haust voru sungnir tómir gleðisöngvar en um þessar mundir er það bara bölmóður. Þetta virtist breytast á einni nóttu. Ef eitthvað er að marka svartagallsrausið nú um stundir má kannski segja að það hafi ekki tekið Samfylkinguna nema hálft ár við stjórnvölinn að breyta góðæri í kreppu. Það væri þá líka umhugsunarefni fyrir þá sem leiddu hana til valda.

Það sem er þó ef til vill alvarlegast við hugsanlega efnahagslægð er að margir Samfylkingarmenn virðast í aðra röndina ánægðir með að þeim sé að takast að brotlenda efnahagsstjórninni. Þeir telja það nefnilega einu helsta áhugamáli sínu til framdráttar að hér sé allt í steik; þá aukist líkurnar á því að aðrir stjórnmálaflokkar gefist líka upp á því að reka hér frjálst og fullvalda ríki.

Þessi Þórðargleði er óhugnanleg. Lengstum hefur litið út fyrir að Samfylkingin væri einkum áhugasöm um að drösla Íslendingum inn í Evrópusambandið til að gera Ísland kratískt án þess að þing eða þjóð hefði nokkuð um það að segja. Jafnaðarstefnan kæmi bara í pósti frá tæknikrötum Evrópusambandsins.Þannig mætti hefna þess í Brussel sem hallaðist á Alþingi. Til marks um að Samfylkingin væri ekki heil í afstöðu sinni til ESB var einnig haft að aldrei gerði hún aðild að kosningamáli, þvert á móti. Er það ólíkt Alþýðuflokknum gamla sem gerði mikið úr málinu í þingkosningum 1995 og þurrkaðist nær út. En nú virðist sem áhugi kratanna í Samfylkingunni sé raunverulegur. Að minnsta kosti hlýtur þeim mönnum að vera alvara með málstað sinn sem geta ekki leynt kæti sinni með að hagur landa sinna snarversni mögulega.