Helgarsprokið 23. mars 2008

83. tbl. 12. árg.
Frestur íslenskra stjórnvalda til að bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótakerfið er hálfnaður. Hagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason bendir á þetta í grein í Fréttablaðinu í dag og telur að ríkisstjórnin reyni að skjóta sér undan úrskurðinum.
– Á vef Ríkisútvarpsins 13. mars síðastliðinn.

H vernig færu Íslendingar að án Ríkisútvarpsins? Ef ekki hefði verið fyrir snarræði fréttamanna á útvarpi allra landsmanna hefðu þessar stórfréttir sjálfsagt farið framhjá almenningi. Hverjum hefði dottið í hug, að prófessor í hagfræði segði slík tíðindi í Fréttablaðinu? Líklegt má telja að hagfræðiprófessorinn hljóti blaðamannaverðlaun 2008 fyrir „skúbb ársins“. Það er náttúrulega ekkert smáræði, að sá tími sé hálfnaður sem meirihluti mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna óskaði eftir að íslenska ríkið notaði til að svara þessu áliti. Hálfnaður! Þessi ábending hagfræðiprófessorsins var sannarlega þörf og þjóðin fær vísast seint þakkað Ríkisútvarpinu fyrir að greina skilmerkilega frá henni.

„Nú skal ósagt látið hversu vel sérfræðingar nefndarinnar eru að sér í eignarrétti. Sérfræðingar meirihlutans verða ekki dæmdir af því að þau ríki sem flestir þeirra koma frá standa sig ekki sérlega vel í að vernda eignarrétt manna, ef marka má niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar sem RSE kynnti í mars. Lönd eins og Benín, Perú og Egyptaland eru til dæmis með þeim allra verstu að þessu leyti. Almenningur í þessum löndum hefur ekki notið góðs af verðmætasköpun í heiminum, þar sem fólkið hefur lítið frelsi og eignir þess njóta ekki verndar – ólíkt sérfræðingunum í Genf sem búa við betri kjör en yfirgnæfandi meirihluti samlanda þeirra.“

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Þótt þeir í ráðuneytinu hafi oft sagst vera að vinna í málinu og ráðherrar í ríkisstjórninni talað um að álitið þurfi að skoða vandlega, er sjálfsagt að gera því skóna í tæka tíð að stjórnin muni skjóta sér undan því að svara. Jafnvel þótt það sé tóm vitleysa. Það heldur fólkinu við efnið og minnir á hvað tímanum líður. Gott er að geta treyst því að Þorvaldur Gylfason og hans fólk hjá Ríkisútvarpinu vinni áfram að uppgötvunum um hvað mikið sé eftir af svartíma íslenskra stjórnvalda. Hitt er svo allt annað mál hver viðbrögðin verða og hvort einhver glóra var í niðurstöðu meirihluta mannréttindanefndarinnar. Það er aukaatriði, eins og lesa mátti út úr grein Aðalheiðar Ámundadóttur laganema við Háskólann á Akureyri, sem birtist í Morgunblaðinu 19. mars. Hún bendir á að breyta beri íslenskum reglum til samræmis við sjónarmið sérfræðinga hjá alþjóðlegum stofnunum, hversu vitlaus sem þau sjónarmið kunna að vera.

Herra Abdelfattah Amor frá Túnis, herra Prafullachandra Natwarlal Bhagwati frá Indlandi, herra Glèlè Ahanhanzo frá Benín, herra Ahmed Tawfik Khalil frá Egyptalandi, herra Rajsoomer Lallah frá Máritíus, frú Zonke Zanele Majodina frá Suður-Afríku, herra Pérez Sanchez-Cerro frá Perú og herra Rivas Posada frá Kólumbíu töldu öll að það stríddi gegn jafnræðisreglu alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi að þeir sem vilja veiða á Íslandsmiðum, en hafa ekki veiðirétt, þurfi að borga fyrir veiðiréttinn til þeirra sem eru handhafar hans. Þetta eigi allt rætur að rekja til þess að fyrir um aldarfjórðungi hafi verið ákveðið að úthluta aflaheimildum til fólks með veiðireynslu, en ekki til þeirra sem hefðu enga slíka reynslu. Hinir fyrrnefndu hefðu síðan orðið eigendur heimildanna og getað selt þær öðrum ef þeir vildu ekki veiða sjálfir. Þetta þótti nefndum álitsgjöfum ósanngjarnt; Íslendingar yrðu að breyta reglunum. Og þá er eins gott að drífa í því.

Það er sársaukalaust að nefna, þótt það skipti vitaskuld engu máli, að meirihluti nefndarinnar áttaði sig ekki á því að upphafleg úthlutun aflaheimilda fór ekki bara fram árið 1984, heldur gátu menn um langt árabil unnið sér rétt í kerfinu eftir öðrum leiðum, þar sem ekki þurfti að greiða fyrir aðgang að veiðunum. Nefndin misskildi líka 1. grein laga um stjórn fiskveiða og hvað byggi að baki orðalaginu „sameign þjóðarinnar“ á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Og nefndin hélt reyndar að það væru miðin sjálf, en ekki nytjastofnarnir sem væru í svonefndri „sameign“. Það gildir að sjálfsögðu einu þótt vanþekking nefndarinnar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu og þróun þess sé áberandi. Eða að í séráliti bresks sérfræðings nefndarinnar sem var ósammála niðurstöðu meirihlutans, hafi sérstaklega verið vakið máls á skorti á sérþekkingu nefndarmanna á þessu sviði. Eina sem skiptir máli, er að meirihlutinn sagði skoðun sína og að tíminn er að hlaupa frá Íslendingum að breyta til samræmis. Það gæti að vísu tekið lengri tíma en 6 mánuði að finna lausn sem ekki leiðir til stórtjóns fyrir íslenskan sjávarútveg og samfélagið allt. En það er sennilega betra að gera bara eitthvað, heldur en ekki neitt, svo Íslendingar verði sér ekki til minnkunar á alþjóðavettvangi.

Nú skal ósagt látið hversu vel sérfræðingar nefndarinnar eru að sér í eignarrétti. Sérfræðingar meirihlutans verða ekki dæmdir af því að þau ríki sem flestir þeirra koma frá standa sig ekki sérlega vel í að vernda eignarrétt manna, ef marka má niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar sem RSE kynnti í mars. Lönd eins og Benín, Perú og Egyptaland eru til dæmis með þeim allra verstu að þessu leyti. Almenningur í þessum löndum hefur ekki notið góðs af verðmætasköpun í heiminum, þar sem fólkið hefur lítið frelsi og eignir þess njóta ekki verndar – ólíkt sérfræðingunum í Genf sem búa við betri kjör en yfirgnæfandi meirihluti samlanda þeirra. Í skýrslunni frá RSE kemur fram, sem menn telja sig reyndar hafa vitað nokkuð lengi, að samhengi er á milli skipulags séreignarréttar og almennrar velmegunar. Þetta gildir líka um einstakar atvinnugreinar. Íslendingar þekkja hversu mikil lífskjarabót eignarréttarskipulag í sjávarútvegi hefur verið fyrir landsmenn, þótt vitanlega sé það ekki fullkomið frekar en annað sem maðurinn kemur nálægt. Ekkert af þessu virtist snerta meirihluta mannréttindanefndarinnar. Enda kemur þeim þetta auðvitað ekkert við, þeir búa í Genf og finnst bara að Íslendingar eigi að breyta þessu einhvern veginn.

Og nú bíða margir andstæðingar fiskveiðistjórnunarkerfisins á Íslandi þess í ofvæni að kerfinu verði loksins kollvarpað. Þeir kæra sig kollótta um hvað það er sem niðurstaða nefndarinnar felur í sér eða á hverju hún er byggð. Þeim finnst líka aukaatriði hvað sérfræðingar nefndarinnar frá Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Japan og Ástralíu höfðu að segja, en þeir voru ósammála meirihlutanum og skiluðu sérálitum. Allra minnstu skiptir að Hæstiréttur Íslands hefur með dómi talið að hinar umdeildu reglur kerfisins séu ekki í andstöðu við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar um jafnræði. Það væri heimóttarlegt að skýla sér á bak við þetta. Eða grípa til þeirra varna að niðurstöður Hæstaréttar hafi lagagildi á Íslandi öfugt við álit mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna. Aðalatriðið er auðvitað að falla ekki á tíma. Og að farið sé í einu og öllu eftir því sem alþjóðlegar nefndir og ráð, sem Íslendingar eru aðilar að, segja svo að enginn verði sér nú til skammar.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra páska.

Altaristafla Lögmannshlíðarkirkju er frá árinu 1648 og sýnir Jesúm í Emmaus með tveimur lærisveinum á upprisudaginn. Myndin tekin úr 10. bindi Kirkna Íslands.