Föstudagur 21. mars 2008

81. tbl. 12. árg.
Það sem kallað er meiri menntun er annað dæmi um það sem gagnrýnislaust er reynt að gera að mikilvægu markmiði þjóðarinnar. Þegar hinn margraddaði söngur um nauðsyn og gildi meiri menntunar er sungin á opinberum vettvangi fjallar textinn ekki um þær mörgu leiðir sem nú eru öllum opnar til að auka færni sína, kunnáttu og þroska. Nei, það er einblínt á skólagöngu, einkum lengri leiðir gengum fleiri háskóla. Aukin menntun í þeirri merkingu er talin forsenda framfara, samkeppnishæfni og hagvaxtar. Því er talin höfuðnauðsyn að auka fjárframlög til skóla.
– Hörður Bergmann, Að vera eða sýnast.

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála skrifar Atli Harðarson heimspekingur og aðstoðarskólameistari um bók Harðar Bergmanns Að vera eða sýnast sem kom út á síðasta ári. Atli staldrar nokkuð við kafla í bókinni sem ber heitið menntastaglið enda sjálfur skólamaður. Eins og tilvitnunin hér að ofan ber með sér hefur Hörður efasemdir um að menntun sé það eitt að fara sem lengsta og dýrasta leið um hærri og hærri skóla. Atli deilir þessum efasemdum með Herði.

Þegar ég las þennan kafla rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum síðan hlustaði ég á prófessor Þorvald Gylfason tala yfir skólastjórnendum um gildi menntunar fyrir efnahag þjóða. Hann hafði á hraðbergi gögn sem sýndu fylgni milli hagvaxtar og aukinnar skólagöngu. Fundarmenn gerðu góðan róm að máli hans enda hljómar það vel í eyrum skólastjórnenda þegar rætt er um gagnsemi skólahalds. Ræðumaður og þeir sem lögðu spurningar fyrir hann að erindi loknu virtust flestir gera ráð fyrir að skýringin á fylgni menntunar og hagvaxtar væri sú að menntun stuðlaði að betri efnahag. En víst má spyrja, eins og Hörður bergmann gerir, hvort þetta sé allur sannleikurinn? Getur ekki líka verið að fólk fari þá fyrst að enda börn sín í skóla þegar það verður sæmilega bjargálna og hefur efni á að sleppa þeim úr vinnu.

Þetta er vandinn við töfluspeki hagfræðinganna. Raunveruleikinn kemst sjaldan allur fyrir á einu línuriti og oft segja þessi línurit minna en ekki neitt.

En Þorvaldur Gylfason hefur ekki bara átt bágt með að spá fyrir um fortíðina heldur hefur framtíðin verið honum þung í skauti, ekki síst þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn og Þorvaldur ekki nema hóflega bjartsýnn á framtíð þjóðar undir stjórn manna úr slíkum flokki. Hann ritaði heila bók um hrakspár sínar árið 1995. Bókin bar hið dramatíska nafn Síðustu forvöð. Í bókinni sagði hann allt stefna norður og niður ef ekki yrði farið að ráðum sínum í efnahagsmálum. Í engu var farið að ráðum mannsins en við tók eitt lengsta og kröftugasta hagvaxtarskeið í íslensku efnahagslífi sem um getur. Þessum hagvaxtartíma kann þó að vera að ljúka um þessar mundir enda er Samfylkingin, flokkur Þorvaldar, nú búin að vera nær heilt ár í ríkisstjórn.