Fimmtudagur 20. mars 2008

80. tbl. 12. árg.

Á

Komdu heim úr stríðinu ástin mín.

rið 2003 og næstu ár á eftir var miklu púðri skyndilega eytt í mótmæli gegn stríðinu í Írak, hinu „ólögmæta árásarstríði“ eins og það var kallað. Þó hafði staðið yfir hernaður gegn Írökum svo áratugum skipti án þess að það vekti sérstaka eftirtekt andstæðinga stríðsins. Á þeim hernaði og þeim milljónum mannslífa sem hann kostaði bar Saddam Hussein ábyrð. Hann er einn fárra harðstjóra úr þessum heimshluta sem fengið hefur málagjöld.

Helstu kanónur innrásarinnar í Írak, Bush, Blair og Howard, voru þrátt fyrir mótmælin engu að síður endurkjörnir í almennum kosningum í heimalöndum sínum á árunum eftir innrásina. Mótmælin gegn stríðinu ristu því ekki djúpt þótt stríðið nyti lítils stuðnings í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hatrammir andstæðingar stríðsins voru fáir en háværir. Stríðið varð aldrei að úrslitaatriði í hugum kjósenda.

En árið 2003 birtist í kvikmyndahúsum um allan heim mun áhrifaríkari boðskapur gegn stríði en sést hefur á nokkrum mótmælafundi gegn Íraksstríðinu. Kvikmyndin Kaldbakur (Cold Mountain) eftir Anthony Minghella er sérlega sláandi lýsing á því hvernig einstaklingurinn, manneskjan, verður að dufti þegar stríðsvélarnar eru ræstar. Einlægri ást er stillt upp gegn viðbjóði stríðsátaka, nágrannar verða að villidýrum þegar lögmál stríðsins ryðja náungakærleik úr vegi, einstaklingurinn skiptir engu máli lengur, jafnvel í þjóðfélagi sem grundvallað var á rétti einstaklingsins.

Mikið meiri verða andstæðurnar ekki; annars vegar sjálfsprottin ást tveggja einstaklinga og hins vegar nauðung og miðstýring ríkisrekins hernaðar. 

Þrjár leikkonur, Kidman, Zellweger og Portman fara á kostum í þessari mynd.

Anthony Minghella lést nú í vikunni.