Miðvikudagur 19. mars 2008

79. tbl. 12. árg.

Á dögunum sagði Vefþjóðviljinn frá þremur úrklippum úr Morgunblaðinu sem áttu það tvennt sameiginlegt að enginn annar vitnaði til þeirra og að efni þeirra passaði engan veginn við samsæriskenningarnar sem standa upp úr álitsgjöfum íslenskra fjölmiðla. Þessi úrklippubirting féll í góðan jarðveg og þess vegna dettur Vefþjóðviljanum í hug að halda áfram á sömu braut.

Nú verður ekki litið í Morgunblaðið heldur í dómasafn Hæstaréttar Íslands. Þar féll um daginn dómur í alvarlegu máli þar sem tekist var á um það hvort einstaklingur skyldi framseldur til erlendra yfirvalda til að svara þar til saka fyrir ætlaða glæpi. Dómsmálaráðherra hafði ákveðið að maðurinn yrði framseldur og Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest þá ákvörðun. Þaðan gekk málið til Hæstaréttar sem klofnaði í málinu. Meirihlutann skipuðu tveir dómarar og dómsorðið var svohljóðandi:

 „Felld er úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 8. október 2007 um framsal varnaraðila X til Litháen. Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði…“

Einn dómari skilaði hins vegar sératkvæði og vildi staðfesta ákvörðun ráðherrans. Dómarinn sem vildi staðfesta ákvörðunina heitir Hjördís Hákonardóttir, en þeir tveir sem mynduðu meirihluta og felldu ákvörðun Björns Bjarnasonar úr gildi heita Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Og hafa menn heyrt mikið til þessa dóms vitnað og hverjir dæmdu hann? Ekki það nei? Af hverju ætli það sé? Sennilega af því að fjölmiðlamenn hafa bara engan áhuga á Birni Bjarnasyni og því ef ákvarðanir hans eru felldar úr gildi.