Þriðjudagur 18. mars 2008

78. tbl. 12. árg.

E f að íþróttakálfurinn fylgdi ekki Morgunblaðinu í hverri viku væri fasteignablaðið eina menningar- og þjóðmálarit blaðsins. Í fasteignablaðinu má jafnan finna áhugaverð sjónarmið og blaðið í gær var engin undantekning. Þar var meðal annars rætt við framkvæmdastjóra félags fasteignasala um nýtt frumvarp sem er í smíðum í viðskiptaráðuneytinu um fasteignaviðskipti. Ef marka má framkvæmdastjórann vill viðskiptaráðherra fella niður skylduaðild fasteignasala að félaginu en hún hefur verið til staðar undanfarin þrjú ár.

Vefþjóðviljinn gagnrýndi þessa skylduaðild á sínum tíma og fagnar því auðvitað að viðskiptaráðherra ætli nú að afnema hana.

Meginröksemd framkvæmdastjóra félags fasteignasala fyrir skylduaðildinni er að félagið veiti almenningi einhvers konar öryggi gegn vafasömum viðskiptaháttum. Framkvæmdastjórinn vísar einnig til þess að ýmsar aðrar starfstéttir hafi lögverndun starfsheita og starfsréttinda og fasteignasalar telji sig þar með eiga heitingu á sams konar réttindum frá ríkinu.

Auðvitað er öll lögverndun starfsheita og -réttinda öðrum þræði tilraun atvinnurekenda og sérfræðinga til að takmarka samkeppni við sig. Kröfur um slíka lögverndun eru hins vegar jafnan settar fram í nafni neytenda þótt þeir hafi aldrei óskað eftir henni. Það eru fyrst og síðast atvinnurekendur sjálfir sem biðja um þessa lögverndun í þeirri von að þeir þurfi ekki að etja kappi við ný fyrirtæki sem bjóða nýjungar og öðruvísi þjónustu á öðru verði.

Hugtakið „neytendavernd“ er mikið notað til að réttlæta íþyngjandi lög og reglur um alls kyns starfsemi. En með þessum reglum er fyrst og fremst verið að taka völdin af neytendum sjálfum því það eru þeir sem hafa síðasta orðið í daglegum viðskiptum. Það eru þeir sem ákveða hvar og hvenær þeir eiga viðskipti.

Hitt sem mælir gegn því að neytendur séu verndaðir fyrir sjálfum sér með boðum og bönnum er að menn munu aldrei losna alveg við svikahrappa úr viðskiptum. Skylduaðild að fagfélögum kemur ekki í veg fyrir að illa innréttaðir menn hafi rangt við í viðskiptum. Það er því beinlínis verið að lofa neytendum öryggi sem ekki að hægt að standa við. Það á ekki að venja menn við slíkt falskt öryggi.