Mánudagur 17. mars 2008

77. tbl. 12. árg.

Á nægjulegar fréttir bárust í síðustu viku af þeim sem standa fyrir hvalaskoðunarferðum frá ótal höfnum í landinu. Ef marka má fréttirnar stígur nú fjórði hver ferðamaður á stokk til að skoða hvali þá sem fylla íslenska firði, borða loðnu og frussa framaní Þjóðverja. Töldu fararstjórarnir að vinsældir þessara skoðunarferða myndu halda áfram að aukast ár frá ári og er ástæða til að samgleðjast þeim með það.

Og þá er forsvarsmönnum hvalaskoðunarfyrirtækjanna ekkert að vanbúnaði að biðjast afsökunar á stóryrðum sínum í garð hvalveiðimanna og sjávarútvegsráðherra. Það var nú ekki svo lítið sem þeir fengu að heyra þegar ráðherrann leyfði loksins veiðar á nokkrum hrefnum fyrir fáum misserum. Hvalaskoðunarsamtök Íslands sögðu að ákvörðun um vísindaveiðar væri „bein aðför að greininni“, verið væri að „fórna meiri hagsmunum fyrir minni“, ákvörðunin myndi „skaða ferðaþjónustuna á Íslandi almennt og hvalaskoðun með beinum hætti“. Samtök ferðaþjónustunnar mótmæltu auðvitað eins og löngum áður – nema auðvitað þegar sett eru lög og veitingamönnum bannað að leyfa reykingar í eigin húsum – og skildu vitaskuld ekki af hverju ekki hefði verið haft samráð við samtökin áður en teknar væru ákvarðanir um vísindaveiðar á hvölum. Tuttugu og ein ferðaskrifstofa í Evrópu tók upp á því að skrifa undir yfirlýsingu um að vísindaveiðar á hvölum gætu haft „hörmuleg áhrif, ekki eingöngu á hvalina sem eru veiddir heldur eingöngu á blómstrandi hvalaskoðunarútgerð og íslenskt efnahagslíf í heild sinni.“

Og hvalaskoðun hefur aldrei gengið betur. Og enginn hermir stóru orðin upp á hvalaskoðarana. Enda gildir einföld regla um stóryrði í garð stjórnvalda. Þau eiga greiða leið í fréttir. Engra spurning er spurt og ekkert hermt upp á nokkurn mann síðar.