Helgarsprokið 16. mars 2008

76. tbl. 12. árg.

T il er mikið af góðu fólki sem vill láta gott af sér leiða. Gallinn er sá að margt af þessu fólki vill hafa vit fyrir öðrum og það helst líka á kostnað þessara annarra. Í kaupbæti er svo vitið, sem þessir vel meinandi vilja hafa á fyrir náunganum, oft vitlaust. Á Íslandi má sjá þessa víða stað og er stofnun sem gengur undir nafninu Lýðheilsustöð eitt skýrasta dæmið. Þar fá talsmenn einnar tiltekinnar lífsskoðunar að vinna að áhugamálum sínum á kostnað skattborgara. Stofnuninni er fátt óviðkomandi og ekki er nóg með að þar hafi menn skoðanir á því hvers landsmenn skuli neyta heldur skiptir það þá líka miklu máli hvar menn afla sér neysluvarnings.

Eins og nafnið Lýðheilsustöð gefur til kynna er stofnunin tiltölulega nýstofnuð. Það var eftir að orð eins og ráð, stofnun og þetta og hitt ríkisins féllu úr tísku og inn og flestar nýjar ríkisstofnanir heita nú eitthvað-stofa. Eitt af fræjunum sem Lýðheilsustöð spratt af var Manneldisráð. Ekki kemur á óvart að þessu nafni skuli ekki lengur haldið á lofti. Sú hugmynd að það sé hlutverk ríkisins að ala þegnana eins og dýr til kjötframleiðslu á auðvitað einungis heima í ráðstjórnarríki en ekki vestrænu lýðræðisríki. Segir ekki nafnið allt sem segja þarf?

Eitt af markmiðum Lýðheilsustöðvar er að koma í veg fyrir „offitu“ Íslendinga. Út af fyrir sig má deila um þetta markmið en til að ná markinu er beitt áróðri fyrir því að menn haldi í við sig í mat og drykk. En ólíkt því sem fulltrúar hins opinbera halda fram er alls ekki sjálfgefið hvernig best er að stemma stigu við fitusöfnun. Viðtekið er hins vegar hjá þeim næringarfræðingum sem komist hafa á framfæri hins opinbera að það eitt skipti máli hversu margra hitaeininga fólk neyti. Fæðuval hafi því takmörkuð áhrif á holdafar, mestu skipti hversu mikið fólk borði.

Samhliða talningu hitaeininga er mikil áhersla lögð á að takmarka neyslu fitu. Fólk er til að neyta frekar kolvetna en fitu og þó að minnst sé á að betra sé að neyta kolvetna eins og grófra korna en auðmeltanlegra sykra er hætt við að eftir standi hjá almenningi að kolvetni séu hollari en fita. Þó að þessi sjónarmið séu viðtekin er langt því frá að þau séu óumdeild. Frægastur efasemdarmanna um viðtekna næringarfræði er líklega Robert C. Atkins sem Atkins megrunarkúrinn er nefndur eftir. Það hefur verið vinsæl iðja hefðbundinna næringarfræðinga að gera lítið úr kenningum Atkins með ýmsum hætti. Er það ekki að undra þar sem hagsmunir margra af því að hið opinbera haldi óbreyttri stefnu í „manneldismálum“ eru miklir.

En það eru fleiri en „rugludallar“ eins og Atkins sem hafa lýst því að neysla ýmissa kolvetna sé skaðvænleg og stemma þurfi stigu við henni. Í bókinni Eat Drink and Be Healthy lýsir Walter C. Willet deildarforseti næringarfræðideildar Lýðheilsuskóla Harvard háskóla í Bandaríkjunum því sem hann telur mikilvægt ef fólk vill velja mataræði sem bætir heilsu þess.

Í stuttu máli má segja að Willet geri grein fyrir því hvernig neysla kolvetna valdi því að blóðsykur fólks hækki hratt, það leiði til þess að líkaminn framleiðir mikið magn insúlíns til að vinna úr blóðsykrinum en af því leiði að hratt gengur á blóðsykurinn og líkaminn geri kröfur um meiri sykur. Þessi vítahringur leiðir oft til offitu og í alvarlegustu tilfellum til sykursýki. Í þeirri hefðbundnu næringarfræði sem flestar opinberar stofnanir styðja hafa þessar kenningar annað hvort mætt tómlæti eða reynt hefur verið að gera þær tortryggilegar.

Vefþjóðviljinn heldur því ekki fram að hann viti hvernig best er fyrir fólk að haga lífi sínu. Blaðið er hins vegar sannfært um að opinberir starfsmenn eru ólíklegir til að veita leiðsögn um það. Væri ekki tilvalið nú þegar fjármálaráðherra veltir því fyrir sér hvort hann hafi ráð á því að leggja af stimpilgjöld að Lýðheilsustöð verði lögð niður?