Laugardagur 16. febrúar 2008

47. tbl. 12. árg.

Í gær voru sex ungir menn dæmdir í héraðsdómi Reykjavíkur í samtals um 30 ára fangelsi fyrir tilraun til innflutnings á talsverðu magni af hættulegum fíkniefnum í máli sem kennt er við Pólstjörnuna. Nær heil starfsævi venjulegs manns farin fyrir lítið. Þyngsti dómurinn var yfir 9 ára fangelsi. Ákæruvaldið fór fram á 12 ára fangelsi yfir þeim manni. Í máli Guðrúnar Sesselju Arnardóttur verjanda mannsins í fréttum í gær kom fram að ekki hefði náðst í skottið á þeim sem fjármögnuðu og skipulögðu innflutninginn, höfuðpaurunum sjálfum enda neituðu þeir sem sjá um framkvæmd innflutningsins undantekningarlítið að vísa á aðal mennina. „Þeir sem eiga efnin, höfuðpaurarnir í raun og veru, þeir sleppa,“ sagði verjandinn í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi.

Þessar hörðu refsingar eru svipaðar og fyrir manndráp og eru mun þyngri en fyrir alvarlegar líkamsárásir og nauðganir. Þó er sá munur á þessu að í líkamsárásum er fórnarlamb til staðar, manneskja sem hefur verið beitt órétti gegn vilja sínum. Hvert er fórnarlambið í siglingu með fíkniefni í seglskútu á milli Danmerkur og Íslands? Ekki voru þau mætt í dómsal til að bera vitni gegn sakborningum eða til að fylgjast með kvölurum sínum hljóta makleg málagjöld. Hvar eru þau þá? Vafalaust myndu ýmsir benda á stóran hóp manna sem misst hafa fótanna í fíkniefnaneyslu. Það er rétt að fíkniefnaneyslu getur fylgt mikið böl. Hins vegar er enginn neyddur til að hefja neyslu fíkniefna, hvorki þeirra efna sem ríkið bannar né þeirra sem ríkið rekur verslanir til að selja. Það er ákvörðun sem menn taka sjálfir og flestir gera sér grein fyrir áhættunni sem því fylgir.

Lögreglan fékk sem von er nokkurt hrós – gott ef ekki sérstaka viðurkenningu frá einum fjölmiðlinum – fyrir að handsama vinnumennina í þessu fíkniefnamáli þótt húsbændur þeirra hafi sloppið. Þrátt fyrir þennan árangur lögreglunnar munu fíkniefni halda áfram að berast til landsins sem fyrr og þeir sem vilja nota þau munu áfram eiga auðvelt með að nálgast þau. Lögregluvald hefur aldrei dugað að útrýma persónulegum löstum manna. Jafnvel í lokuðum alræðisríkjum og rammgerðum fangelsum komast menn sem það vilja yfir þau fíkniefni sem þeir kjósa.