Helgarsprokið 17. febrúar 2008

48. tbl. 12. árg.
Vald spillir gjarnan; allsherjarvald gjörspillir.
– Acton lávarður (1834-1902)

M enn taka því gjarnan sem sjálfsögðum hlut að „Ríkið“ taki ákvarðanir um allt lífið, frá vöggu til grafar. Þetta gerir hið óáþreifanlega vald af óendanlegri visku sinni og óbilandi umhyggju fyrir velferð mannanna, aumra þegnanna. „Ríkið“ mælir fyrir um hvernig menn skuli standa og sitja; hvað menn megi segja, gera, borða, vinna við; hvort og hverju menn mega klæðast; hvar og hvernig menn mega búa; hverjum og hvernig menn mega kvænast eða gefast; hvort menn megi eignast börn og hvernig mönnum leyfist að ala þau upp og loks, hvenær og hvernig menn mega deyja.

Þessari forræðisáráttu er oft lítið mótmælt af hinum almenna manni og þeir sem það gera eru jafnan úthrópaðir fyrir að ráðast gegn skipulagi sem víðtæk sátt ríki um. Þegar einhverri afskiptaseminni fæst hins vegar aflétt, hverfa þeir sem mæltu henni bót jafnan úr umræðunni eins og dögg fyrir sólu.

„Sams konar framþróun á sér stað í Bandaríkjunum og í öðrum ríkjum heims, það er þeim ríkjum fækkar stöðugt sem taka þegna sína af lífi. Í kjölfar dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna árið 1972 var dauðarefsing í raun aflögð í Bandaríkjunum öllum, en eftir að hún var tekin aftur upp árið 1976 fjölgaði aftökum hratt fram til aldamóta en hefur fækkað jafnt og þétt síðan. Í þriðjungi ríkja Bandaríkjanna hafa ekki farið fram aftökur frá árinu 1976 og í öðrum þriðjungi hafa engar aftökur átt sér stað á síðustu árum.“

Alvarlegustu drottnunina hefur þó gengið hægt að hrista úr mannlegu samfélagi, það er þá villu að telja að „Ríkinu“ eigi að vera heimilt að slátra þegnum sínum, brjóti þeir nægilega alvarlega gegn lögum samfélagsins. Í einræðisríkjum studdist og styðst þessi skoðun gjarnan við þá trú að þegnarnir séu í einhverjum skilningi eign einvaldsins eða í það minnsta sé líf þeirra á forræði hans. Erfiðara gengur að rökstyðja þessa villimennsku í lýðræðisþjóðfélögum. Er þar ýmist byggt á einhvers konar blöndu af hefndarrétti og þeirri skoðun að réttur manns til lífs fyrirgerist við nægilega alvarleg afbrot, svo sem manndráp eða landráð.

Þetta augljósa rökþrot þeirra sem vilja halda í drápsrétt „Ríkisins“ hefur þó leitt til þess að þeim ríkjum hefur fækkað jafnt og þétt þar sem slíkt er látið viðgangast. Dauðarefsingar hafa nú verið aflagðar í ríflega 120 ríkjum heims, ýmist einungis í raun eða einnig með lagabreytingum. Á hverju ári fella fleiri þjóðir burt aftökuvald ríkja sinna: Í ár Úsbekistan, í fyrra Albanía, Rúanda og Kyrgistan, Filippseyjar árið þar áður og árið 2005 Mexíkó og Líbería. Eftir standa nú einungis 73 ríki þar sem „Ríkinu“ er játaður réttur til að dæma borgarana til dauða. Sá listi telur að mestu leyti ýmist einræðis- og alræðisríki eða ríki þar sem lýðræðið stendur á brauðfótum og borgaraleg mannréttindi eru lítt virt. Afkastamestu slátrararnir síðastliðin hafa verið ríkisstjórnir Kína (1000-2000 slátrað á ári) og Íran (100-200 árlega). Aðrir ríkisstjórnir sem hafa verið iðnar við kolann eru Pakistan, Írak, Súdan, Yemen, Víetnam, Mongólía og Singapúr.

Í ljósi framanritaðs stinga Bandaríkin sannarlega í stúf við önnur ríki á listanum yfir þau ríki sem játa hinu opinbera þetta drottinvald yfir lífi borgaranna. Enn sérkennilegra er að sjá Bandaríkin jafnan einnig í hópi þeirra ríkja sem taka hvað flesta af lífi (50- 60 árlega). Þessi villimennska er svartur blettur á orðspori ríkis þar sem frelsi borgaranna til orðs og æðis er með því mesta sem þekkist í heiminum. Við bætist að í flestum ríkjum Bandaríkjanna voru aftökur aftökur barna, unglinga, geðsjúkra og vangefinna lögmætar og stundaðar til skamms tíma, eða þar til Hæstiréttur Bandaríkjanna lagði bann við þeim árið 1986 (geðsjúkir), 2002 (vangefnir) og árið 2005 (yngri en 18 ára).

Sams konar framþróun á sér stað í Bandaríkjunum og í öðrum ríkjum heims, það er þeim ríkjum fækkar stöðugt sem taka þegna sína af lífi. Í kjölfar dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna árið 1972 var dauðarefsing í raun aflögð í Bandaríkjunum öllum, en eftir að hún var tekin aftur upp árið 1976 fjölgaði aftökum hratt fram til aldamóta en hefur fækkað jafnt og þétt síðan. Í þriðjungi ríkja Bandaríkjanna hafa ekki farið fram aftökur frá árinu 1976 og í öðrum þriðjungi hafa engar aftökur átt sér stað á síðustu árum. Á hverju ári bætast við ríki þar sem dauðarefsingar hafa verið aflagðar, nú síðast New Jersey ríki nú fyrir jólin.

Þrátt fyrir að varðhundar helsis þagni jafnan fljótlega eftir að oki ranghugmynda þeirra hefur verið aflétt, þá verða málsvarar frelsisins ávallt að hafa varann á sér. Á síðastliðnu ári var enn tekist á um dauðarefsingarrétt „Ríkisins“ á þingum nær fjörutíu ríkja Bandríkjanna, ýmist um að afnema, rýmka eða endurupptaka slíkar refsingar.