Föstudagur 15. febrúar 2008

46. tbl. 12. árg.
Sú óánægja sem varð á meðal blaðamanna er skiljanleg. Sú leið sem farin var í samskiptum við blaðamenn að loknum reglubundnum fundi borgarstjórnarflokksins var ákveðin af borgarfulltrúum í því augnamiði að gera þau markvissari.
– Andri Óttarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins skýrir fyrir Morgunblaðinu hvers vegna aðeins útvaldir blaðamenn fengu að sitja blaðamannafund með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni í Valhöll.

O ft eru tilefnin til blaðamannafunda lítilfjörleg. Nýtt met var þó slegið í þeim efnum á mánudaginn var þegar hjörð blaðamanna hafði komið sér fyrir í fatahenginu í Valhöll og gerði ráð fyrir að þar með myndu verða stórtíðindi í veraldarsögunni. Gott og vel. Fjölmiðlamenn telja sér oft trú um að þeir umfram aðra séu fulltrúar almennings og eigi heimtingu á að menn sinni sér hvar og hvenær sem er.

En hver, ef nokkur, boðaði eiginlega þennan blaðamannafund í Valhöll? Og ef hann var ekki boðaður hver tók ákvörðun um að halda hann samt? Það væri gaman að vita það. Hvernig átti þetta fíaskó sér eiginlega stað? „Viljiði að ég segi eitthvað?“

Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins vísar ábyrgðinni á fundarhöldunum á borgarfulltrúa flokksins. Hann telur að þeir beri sérstaka ábyrgð á því hvernig fundurinn fór fram. Þetta hljómar eitthvað einkennilega. Hröðuðu borgarfulltrúarnir sér ekki allir úr höllinni löngu áður en fundurinn hófst? Allir nema Vilhjálmur oddviti? Það var ekki annað að sjá á sjónvarpsmyndum en almennir borgarfulltrúar vildu hvergi koma nærri þessum fundi.

Framkvæmdastjóri flokksins skellir samt skuldinni á þá.