Mánudagur 11. febrúar 2008

42. tbl. 12. árg.

Í liðinni viku hringdi maður nokkur í Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu og setti á langa ræðu um tilgangsleysi þess að þingmenn ræddu hluti eins og starfsheiti ráðherra. Sem víðfrægt er hefur Steinunn Valdís Óskarsdóttir alþingismaður gert að því reka að þingmenn finni „kynhlutlaust“ nafn á oddvita framkvæmdavaldsins. Eftir að hafa gert Arnþrúði grein fyrir því að tíma þings og þjóðar væri betur varið í aðra hluti lauk maðurinn lestri sínum á því að leggja til að kvenkyns ráðherrar yrðu framvegis nefndir „ráðynjur“. Hann hefði hugsað málið vel og lengi.

Tíma Alþingis betur varið í eitthvað annað? Ó aðeins ef það væri rétt. Þessi tillaga Steinunnar Valdísar er meinlaust þvaður þótt hún angi svo sem af pólitískri rétthugsun.

Það hækkar hins vegar enginn skattur við að þetta „mál“ sé rætt. Það verði ekki til nýjar ríkisstofnanir. Engin ný útgjöld blasa við þótt þingmenn láti dæluna ganga um kynhlutleysi starfsheita. Eignarréttur er ekki tekinn af nokkrum manni við þetta tal líkt og þegar eigendur veitingahúsa voru sviptir umráðum yfir öllu nema útveggjum húsa sinna með því að skerða umráðarétt þeirra yfir rúmtaki húsanna. Engin er heldur sviptur atvinnufrelsi líkt og þegar nektardans var svo gott sem bannaður með tæknilegum hindrunum.

Á meðan þingmenn – ekki síst þingmenn eins og Steinunn Valdís Óskarsdóttir – ræða ekki annað en hvað á að kalla ráðherra geta almennir borgarar sofið rótt.