Helgarsprokið 10. febrúar 2008

41. tbl. 12. árg.

T íminn er peningar eða svona hér um bil. Það er kannski ekki alveg satt að tíminn sé beinlínis peningar en tíminn og peningar eru í það minnsta alveg náskyld. Svo skyld að það er oft er hægt að fullyrða að tíminn sé peningar án þess að hafa á því nokkurn fyrirvara. Það er til dæmis hægt að breyta vinnutíma í peninga og breyta þeim peningum svo aftur í frítíma. Þetta stunda flestir megnið af lífi sínu og leggja mikið á sig til að fá sem flestar frístundir fyrir sem fæstar vinnustundir. Þannig aukast líka afköstin, fólk býr til sífellt meiri verðmæti á sífellt skemmri tíma. Ekki svo að skilja að það sé neitt náttúrulögmál, náttúran eins og hún er oftast skilgreind leikur ekki lykilhlutverk í þeirri þróun að vinnustundir víkja fyrir frístundum. Þvert á móti, þegar maðurinn hefur verið hvað háðastur eða „næstur“ náttúrunni hafa frístundirnar einmitt verið fæstar en vinnustundirnar flestar.

Þróunin í Bandaríkjunum, undanfarin eitthundrað ár eða svo hefur einmitt verið á þennan veg. Fólk þarf sífellt færri vinnustundir til að kaupa sömu nauðsynlegu hlutina og það jafnvel þó þessir hlutir hafi tekið miklum framförum á þessum tíma eins og til dæmis bíllin og farsíminn og sama gildir um mjólk og bensín þó þær vörur hafi kannski ekki tekið stakkaskiptum. Á þetta benda höfundarnir W. Michael Cox og Richard Alm í bók sinni Myths of Rich and Poor. Þeir eru fjarskalega duglegir að skjóta niður ýmsar goðsagnir um gömlu góðu dagana og um breikkandi bil milli ríkra og fátækra.

„Það allra vinsælasta við frístundir er að eyða þeim með fjölskyldu og vinum. Keppnin um að búa til sífellt verðmætari vinnustundir er þannig oftast önnur hlið á keppninni um að eiga sem mestan tíma fyrir börn sín, maka og aðra vini og vandamenn. Næst þegar stjórnmálamaður segir það „galið“ að lækka skatta eða „óabyrgt eins og staðan er núna”“væri ráð að skipta þeim orðum út fyrir að það sé galið að fólk sé ekki í vinnunni fram eftir öllu…“

Svo tvö dæmi séu nefnd þá eyddi dæmigerður Bandaríkjamaður sjötíuogsex af hverjum hundrað dölum í mat, föt og húsaskjól í upphafi tuttugustu aldar en árið 1990 var þetta hlutfall orðið þrjátíuogsjö af hverjum hundrað dölum. Eitt gallon af bensíni kostaði Bandaríkjamann á meðallaunum 11 mínutur af vinnu árið 1950 en kostaði helmingi færri mínútur við síðustu aldamót. Vinnutíminn hefur líka styst þar vestra úr 36,9 stundum á viku að meðaltali árið 1973 í 34,4 stundir árið 1996. Höfundarnir benda á að það hafi ekki einhver stefna stjórnvalda sem færði fólki öll þau þægindi og tímasparnað sem leit dagsins ljós á tuttugustu öldinni og það sé heldur ekki fyrir náð stjórnvalda að lífslíkur hafa aukist um þrjátíu ár á öldinni sem leið eða að vinnuvikan hafi styst um meira en tuttugu klukkustundir heldur vegna þess hvernig markaðurinn vinnur.

Við þurfum sem sagt færri vinnustundir, í flestum tilvikum, til að kaupa sömu nauðsynjar og áður. Hvernig við notum svo þær vinnustundir sem sparast er svo annað mál. Margir nota þær til að vinna meira og kaupa meira, ýmist einhverja hluti eða þá frítíma í framtíðinni, á meðan aðrir nota þær vinnustundir sem sparast til aukinna frístunda. Undantekning frá þessu er þó skattar. Það hefur ekki orðið nein bylting í sköttum á sama hátt og farsímum. Þegar GSM símar komu fyrst á almennan markað fyrir rúmlega hálfum öðrum áratug eða svo kostuðu þeir margfalt fleiri vinnustundir en í dag og voru um leið miklu fyrirferðarmeiri og frumstæðari. Það sama er ekki hægt að segja um vinnustundir sem inna þarf að hendi til að greiða skatta, þær þróast lítið til hins betra enda hafa þær allt með náð stjórnvalda að gera en ekkert með það að gera hvernig markaðurinn vinnur.

Skattar eru því tími sem við verðum að taka af ævi okkar og ráðstafa að náð ríkisins. Það þarf varla að taka það fram að ríkið sinnir auðvitað þjónustu sem hver og einn þyrfti hvort eð er að verja einhverjum tíma til ef ekki væru skattarnir en þeim tíma væri talsvert öðruvísi varið og að líkindum væri færri vinnustundum varið til að kaupa þessa sömu þjónustu – eða meira keypt af henni – ef hún hefði fengið að þróast á frjálsum markaði.

Það allra vinsælasta við frístundir er að eyða þeim með fjölskyldu og vinum. Keppnin um að búa til sífellt verðmætari vinnustundir er þannig oftast önnur hlið á keppninni um að eiga sem mestan tíma fyrir börn sín, maka og aðra vini og vandamenn. Næst þegar stjórnmálamaður segir það „galið“ að lækka skatta eða „óabyrgt eins og staðan er núna”“væri ráð að skipta þeim orðum út fyrir að það sé galið að fólk sé ekki í vinnunni fram eftir öllu og að það sé óábyrgt eins og staðan er núna að fólk sé komið heim til barna fyrir kvöldmat. Þá myndi kannski einhver eiga auðveldara með að gera upp hug sinn til stjórnmálamanna.

Það eru nefnilega fjölmargir stjórnmálamenn sem telja það óábyrgt og galið að fólk verji tíma með börnum sínum og fjölskyldu á meðan það vantar ennþá peninga fyrir tónlistarhúsinu, af-því-bara hækkun á fasteignagjöldum og allskonar annarri dómadags vitleysu.

Kaupþing skilaði á dögunum heilum banka aftur í búðina því þeim fannst ekki ráðlegt að kaupa hann eins og ástatt er á fjármálamörkuðum.

Riki og sveitarfélög ætla engu að skila aftur í búðina, enda er kreppa bara eitthvað sem kemur fyrir aðra.