Þriðjudagur 12. febrúar 2008

43. tbl. 12. árg.

Þ að blasir einhvern veginn við flestum Reykvíkingum að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki við sem borgarstjóri að ári. Skiljanlega. Hún hefur allt með sér í starfið. Hún fékk glæsilega kosningu í annað sætið í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og góðan stuðning flestra sem tóku þátt í prófkjörinu. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna getur hins vegar auðvitað ráðið hvern sem er í starfið á næsta ári. Hann er á engan hátt bundinn af því hverjir lentu í næstu sætum á eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni í prófkjörinu. En það kæmi sjálfsagt flestum á óvart ef það yrði annar en Hanna Birna.

Þegar jafn augljós kostur til forystu í borginni er í boði fyrir sjálfstæðismenn er furðulegt að forysta flokksins skuli ekki leysa þau mál sem plagað hafa flokkinn frá því í haust. Það er ekki hægt að láta þessi mál malla lengur án afgerandi niðurstöðu.

Ef sjálfstæðismenn skipta um oddvita í borgarstjórnarflokki sínum léttir ekki aðeins þrýstingi af þeim sjálfum vegna REI-málanna heldur mun kastljósið beinast að öðrum sem tóku þátt í og studdu það mál allt saman í stjórn Orkuveitunnar. Menn munu ekki síst spyrja um þátt Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Dagur taldi á sínum tíma að þegar „sexmenningarnir“ svonefndu stigu á bremsuna í REI-málnum hefðu Reykvíkingar orðið af tugum milljarða.

Það var nefnilega ekki stjórnarandstaða vinstri flokkanna í borginni sem stöðvaði REI-málin heldur hugsjónir sexmenninganna í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Þeir voru kannski seinir á sér enda með takmarkaðar upplýsingar og borgarstjóra sem játað hefur að hafa farið geyst með málin og ekki sýnt þeim nægilegan trúnað. En þetta verður ekki af þeim tekið.

Margir hafa lagt af stað í pólitík með verra veganesti en að hafa staðið við hugsjónir sínar og haft rétt fyrir sér.