Miðvikudagur 30. janúar 2008

30. tbl. 12. árg.
Sérfræðingar um kynferðisofbeldi hafa bent á að í skjóli nektardansstaða þrífist í mörgum tilfellum eiturlyfjasala og vændi, auk þess sem erfitt sé að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem starfi á slíkum stöðum séu neyddar til starfans eður ei.
– Úr greinargerð þingmanna VG með lagafrumvarpi sem afnemur undanþágur frá banni við nektarsýningum.

N ektarsýningar eru nú þegar bannaðar nema þar sem þær eru sérstaklega leyfðar. Sveitarstjórn þarf jákvæða umsögn heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lögreglu til að leyfa nektardans. Vinstri grænum þykir þó ekki nóg að gert og vilja afnema allar undanþágur. Helsti rökstuðningur þeirra er að á nektardansstöðum þrífist einnig eiturlyfjasala og vændi þótt þeir leggi raunar ekki fram nein gögn þess efnis. Það skín í gegn að þessir þingmenn vinstri grænna hafa einfaldlega skömm á nektarsýningum. Það er munurinn á vinstri grænum og mörgum öðrum að þeir láta það eftir sér að banna það sem þeim líkar ekki. Fæstum líkar þessi framganga vinstri grænna og þeir sjálfir yrðu snarlega bannaðir ef aðrir létu eftir sér að banna allt sem stingur í augu.

Vændi og fíkniefnaneysla fer fram vítt og breitt um þjóðfélagið. Í mörgum tilfellum þrífst þetta í skjóli einkaheimila, skemmtistaða og hótela. Í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var til dæmis sænskur þáttur sem virtist sýna talsverða kókaínneyslu á „heitustu“ skemmtistöðum Stokkhólms við Stureplan. Vafalítið fer einnig fram bæði vændi og sala og neysla á ólöglegum fíkniefnum á íslenskum skemmtistöðum og heimilum. Banna alla þessa staði?

Stundum mætti ætla að þingmenn vinstri grænna leggi fram frumvörp í trausti þess að þau verði ekki samþykkt. En ótrúlega oft tekst þeim þó að leiða umræðuna með þessum hætti. Í þessu tilviki eru sjálfsagt fáir þingmenn sammála vinstri grænum. En munu þeir þingmenn sem eru alveg á móti þessu frumvarpi þora að segja það? Flestir munu í lengstu lög forðast það. Því hver vill verja nektarbúllur opinberlega og fá þann stimpil á sig frá vinstri grænum að viðkomandi sé fylgjandi eiturlyfjum, vændi og nauðung?