N okkrir kráreigendur gáfu í gær gestum sínum leyfi til að reykja við barinn. Þessi viðburður kom í fréttum. Maður leyfir gestum sínum að reykja í húsum sínum og það er fréttaefni. Við hverju mega menn búast í fréttum næst? Veitingamaður leyfði gestum sínum að snæða skötu svo allt angaði? Vert leyfði gestum sínum að háma í sig alls kyns óhollustu sem lýðheilsustöð mælir gegn? Eigandi sportbars leyfði gestum sínum að vaka yfir boltaleikjum með þeim afleiðingum að þeir fengu ekki þann nætursvefn sem manneldisráð mælir með?
Hvert er eignarréttur manna yfir eigin húsum farinn þegar það er forsíðufrétt að menn leyfi tóbaksnotkun á bar sem þeir eiga og enginn er neyddur inn á?
Það þarf ekki að fjölyrða um skaðann sem reykingabannið hefur valdið þeim veitingamönnum sem kusu áður að leyfa reykingar í húsum sínum. Þeir leyfðu reykingar vegna þess að það var gott fyrir viðskiptin. Reykurinn fældi hvorki viðskiptavini né starfsmenn frá í nægilegum mæli til að þessir veitingamenn bönnuðu reykingar. Starfsmenn og gestir mátu kostina við þessa staði meiri en óþægindin af reyknum.
Þegar Alþingi lagði á bann við reykingum á voru hins vegar þegar nokkrir reyklausir staðir í Reykjavík og víðar um landið. Reykleysið var þeirra sérstaða og viðskipti þeirra byggðust að einhverju leyti á að bjóða gestum upp á gott loft. Bannið tók þessa sérstöðu af þeim.