Þriðjudagur 29. janúar 2008

29. tbl. 12. árg.
Ég skil til dæmis ekki að Samfylkingin er með fleiri þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík norður þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið 7% meira af atkvæðum. Ég veit ekki ennþá hvernig þeir hafa reiknað mig inn.
– Ellert B. Schram í viðtali við mbl.is eftir að hafa náð kjöri í Reykjavík norður í alþingiskosningunum 2007.

F jórir fulltrúar Reykvíkinga á Alþingi með Mörð Árnason varaþingmann í fararbroddi hafa lagt fram frumvarp um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins sem myndi gera Reykjavík að einu kjördæmi næði það fram að ganga. Frá árinu 2003 hefur borginni verið skipt í tvö kjördæmi. Það deilir enginn um að skipting borgarinnar í þessi tvö kjördæmi er undarleg. Flokkarnir halda prófkjör í borginni allri en vegna skiptingarinnar er ekki öruggt að þeir sem ná árangri í prófkjöri komist á þing heldur geta aðrir endað þar sem lakari árangri náðu. Mörður fékk að kenna á þessu í síðustu kosningum en hann varð ofar í prófkjöri Samfylkingarinnar en Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ellert B. Schram. Þau eru á þingi en ekki hann. Mörður varð í 7. sæti í prófkjörinu, Steinunn Valdís í 8. sæti og Ellert í 12. sæti en var færður upp í 10. sætið af kjörnefnd flokksins. Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokksins féll af þingi vegna þessarar skiptingar árið 2003. Vegna jöfnunarmannakerfis getur svo flokkur fengið fleiri þingmenn innan kjördæmis en flokkur sem nýtur meiri stuðnings. Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokkur fjóra þingmenn í Reykjavík norður með 36,4% fylgi en Samfylkingin fékk fimm þingmenn í kjördæminu með 29,2% fylgi. Samfylkingin fékk báða jöfnunarmenn kjördæmisins, Steinunni og Ellert, en engan jöfnunarmann í hinu Reykjavíkurkjördæminu þar sem Mörður Árnason sat vongóður í sínu fína sæti.

Það er út af fyrir sig ágætt mál að sameina Reykjavík í einu kjördæmi. Það er rétt sem segir í greinargerð með frumvarpinu: „Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi flækir leikreglur lýðræðisins fyrir kjósendum og veldur þeim óþægindum. Kjördæmaskiptingin hefur þyngt róðurinn við stjórnmálastarf í borginni, aukið vanda við framkvæmd kosninga, spillt vali á framboðslista og torveldað samráð með fulltrúum Reykvíkinga á þingi.“

En megin ástæðan fyrir því að alls kyns undarlegheit gera vart við sig þegar talið er upp úr kjörkössunum er ekki þessi skipting höfuðborgarinnar heldur ójafnt vægi atkvæða eftir kjördæmum. Að baki hverjum þingmanni norðvesturkjördæmis eru um 2300 kjósendur en 3200 til 3800 á suðvesturhorni landsins. Hvergerðingur hefur mun meira atkvæðavægi en kjósandi í næsta húsi í Vatnsendahverfinu í Kópavogi eða Norðlingaholtinu í Reykjavík.

Þetta ójafna vægi atkvæða flækir kerfið í grunninn og gerir jöfnun milli flokka flóknari en ella. Nú eru einn til tveir jöfnunarmenn í hverju kjördæmi af 9 til 12 þingmönnum. Afdrif þessara jöfnunarmanna ráðast bæði af fylgi flokkanna í viðkomandi kjördæmi og á landsvísu. Það mætti minnka sennilega líkurnar á furðuverkum með því að fjölga þessum jöfnunarmönnum í þrjá eða jafnvel fjóra í hverju kjördæmi. Fyrsta skrefið er ef til vill að sameina Reykjavíkurkjördæmin í eitt 22 þingmanna kjördæmi með 4 jöfnunarmenn.