Laugardagur 12. janúar 2008

12. tbl. 12. árg.

V iðskiptablaðið fjallaði í gær um gagnrýni Vefþjóðviljans á uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs en Vefþjóðviljinn hafði bent á að um leið og viðskiptaráðherra vill banna ákveðna tegund uppgreiðslugjalda bankanna innheimtir Íbúðalánasjóður ríkisins uppgreiðslugjöld sem geta numið tugum prósenta af eftirstöðvum láns. Í Viðskiptablaðinu segir meðal annars:

Í skýrslu nefndar um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku, sem Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur lýst stuðningi við, kemur meðal annars fram að takmörk verði lögð á uppgreiðslugjöld við lán á breytilegum vöxtum, en að öðru leyti sé uppgreiðslugjald miðað við kostnað sem lánveitandi verði fyrir vegna ótímabærrar uppgreiðslu. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, segir að því starfi Íbúðalánasjóður ekki í andstöðu við viðskiptaráðherra. … Jón Þór bendir á að helsta gagnrýnisatriðið varðandi uppgreiðslugjöld sé að hafa það fast, óháð vaxtaþróun, þannig sé það til dæmis óeðlilegt að setja upp uppgreiðslugjald ef vextir hafa hækkað síðan lánið var tekið og bankinn græði í raun á að lánið sé greitt fyrir gjalddaga.

Ummæli aðstoðarmanns viðskiptaráðherra lýsa algjörri vanþekkingu á eðli uppgreiðslugjalds bankanna.

Viðskiptaráðherra. Ætlar bara að banna 2% uppgreiðslugjald bankanna en ekki 20% gjald Íbúðalánasjóðs.

Eins og Vefþjóðviljinn rakti eru uppgreiðslugjöld bankanna í raun miklu lægri en uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs. Ástæðan er meðal annars sú að gjald bankanna er alltaf innheimt, ekki bara þegar vextir hafa lækkað. Gjaldið er því í raun trygging sem lántakar greiða til þess að komast hjá því að þurfa hugsanlega að greiða 5%, 10% eða jafnvel 20% uppgreiðslugjald eins og hjá Íbúðalánasjóði. Viðskiptaráðherra vill kannski næst banna tryggingafélögum að innheimta iðgjald af tjónlausum viðskiptavinum þar sem „félögin græði í raun á að viðskiptavinurinn verði ekki fyrir tjóni“?

Skerðing á samningafrelsi eins og felst í banni við uppgreiðslugjaldi er óviðunandi. Með henni er verið að banna fólki að leita hagstæðra lausna. Þær lausnir eru kannski ekki góðar að mati furðulega þenkjandi og afskiptasamra stjórnmálamanna en þeir hafa engan rétt til að þröngva þeirri sérvisku sinni upp á almenning. Vefþjóðviljinn er ekki í nokkrum vafa um að 2% fast uppgreiðslugjald bankanna er mun hagstæðara fyrir mjög marga en uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs sem getur auðveldlega orðið um eða yfir 20%.

Ríkið býður almenningi lánakjör sem fela í sér mikla áhættu vegna ákvæðis um breytilegt uppgreiðslugjald. Aðstoðarmaður viðskiptaráðherra hefur nú staðfest að ráðherrann ætli ekki að taka á því heldur bara á föstu uppgreiðslugjaldi bankanna.

Þegar að slysið verður og lánþegar Íbúðalánasjóðs standa frammi fyrir 20% uppgreiðslugjaldi er hins vegar eins víst að stjórnmálamenn grípi inn í til bjargar þeim sem lent hafa í gildru sjóðsins.