Helgarsprokið 13. janúar 2008

13. tbl. 12. árg.
Maður mundi ætla að virðing manna fyrir Sameinuðu þjóðunum mundi hrapa hraðar en frænka Benons Savans féll niður lyftuopið. Þetta eru engin peð sem í hlut eiga. Þræðirnir liggja allir að æðstu stjórn stofnunarinnar og varða tvö mikilvægustu málin sem hún fjallar um; Írak og Norður-Kóreu. Flestir diplómatarnir frá Ghana og skjólstæðingar þeirra virðast jafnframt vera í stjórnunarstöðum fyrirtækja sem hafa átt í viðskiptum við SÞ og/eða hlut í olíu Saddams.

Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á því að Sameinuðu þjóðir Annans, sem markaðar eru af peningaþvætti í nafni mannúðar og nauðgunum í nafni friðargæslu og bjóða upp á Mannréttindanefnd sem lítur út eins og verðlaunahátíð fyrir heimsins verstu kvalara, eru ekki undantekningin sem sannar regluna. Ástandið verður ekki lagað með umbótum í skrifræðinu sem tryggja það eitt að vanhæf eftirlitsnefnd um fjármál stofnunarinnar verði framvegis sett undir eftirlitsnefnd með eftirlitsnefnd um fjármál.

– Mark Steyn blaðamaður í ræðu í desember 2005.

B enon Sevan var yfirmaður matar-fyrir-olíu verkefnisins og félagi Kofis Annans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Sevan neyddist til að segja af sér vegna spillingarmála sem tengdust verkefninu. En það kom þó ekki að sök því öldruð frænka hans, sem bjó í látlausri tveggja herbergja íbúð á Kýpur færði honum sex talna fjárhæð að gjöf sem skýrir að hans sögn hve sjóðir hans í bönkum eru digrir. Áður en náðist að yfirheyra frænkuna á Kýpur féll hún hins vegar niður um lyftuop og er ekki til frekari frásagnar.

Sameinuðu þjóðirnar eiga það sammerkt með Evrópusambandinu að spillingin á sér engin mörk. Í þessum stofnunum er ekkert lýðræði og ekkert sem minnir á þrígreiningu ríkisvaldsins. Það er kannski gott að hafa það í huga þegar alls kyns „álit“ á því sem Íslendingar aðhafast berast frá þessum stofnunum. Mark Steyn sagði í fyrrnefndri ræðu að þeir Vesturlandabúar sem seilist til áhrifa hjá SÞ eigi það oft sammerkt með einræðisherrum þriðja heimsins að þeir eigi erfitt með að vinna kosningar heima fyrir. Það ætli þeir að bæta sér upp með því að beita Sameinuðu þjóðunum.

„Á nokkrum dögum í janúar 2003 varð hún „forsætisráðherraefni“ og helsti talsmaður flokksins án þess að nokkur flokksmaður hefði greitt því atkvæði og án þess að landsfundur, flokksstjórn eða þingflokkur hefðu fjallað formlega um þessi forystuskipti í flokknum. Össur Skarphéðinsson átti þó að heita formaður í flokknum og hafði meira að segja verið kosinn til þess á landsfundi hans. Hann hafði lýst því yfir 30. desember 2002 að ekki kæmi til greina að Ingibjörg yrði forsætisráðherraefni flokksins. Hún var orðin það þrettán dögum síðar.“

Það er merkilegt að sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem mest talar fyrir beinu lýðræði, þátttökulýðræði, íbúðalýðræði og þar fram eftir götunum er sami flokkur og vill helst að ókjörnir embættismenn í Brussel, New York og Genf hafi sem mest um mál Íslendinga að segja. Ef til vill verður breyting á því nú þegar flokkurinn hefur tekið við stjórnartaumnum í Reykjavík og ríkisstjórn. Þá kann að vera að hann sjá fleiri leiðir til að hafa áhrif en að hefna þess í Brussel sem hallaðist á Alþingi.

En ást Samfylkingarinnar á lýðræðinu er ekki aðeins undarleg í því samhengi að flokkurinn hafi viljað áhrif ókjörinna embættismanna í stofnununum úti í heimi sem mest á mál Íslendinga. Starfshættir flokksins sjálfs þau tæpu tíu ár sem hann hefur starfað hafa verið ólýðræðislegir á margan hátt. Hér eru nokkur dæmi.

Í fyrsta prófkjöri Samfylkingarinnar á Reykjanesi 1999 lenti Ágúst Einarsson í þriðja sæti en Sigríður Jóhannesdóttir í fjórða og Þórunn Sveinbjarnardóttir í því fimmta. Ágúst fékk þrefalt fleiri atkvæði en Þórunn í þriðja sætið og tvöfalt fleiri en Sigríður. Samt voru þær færðar upp fyrir hann og fóru á þing. Ágúst fór aftur í stöðuna sem beðið hafði eftir honum árum saman í Háskóla Íslands.

Í prófkjöri flokksins á Norðurlandi eystra 1999 vann Sigbjörn Gunnarsson góðan sigur, Svanfríður Jónasdóttir sem hlut kosningu í annað sætið var færð niður í það þriðja fyrir Örlyg Hnefil Jónsson. Forysta flokksins trúði þessum úrslitum vart og lét endurtelja í von um að Svanfríður kæmist í fyrsta sætið. Það hafðist þó ekki og var þá gripið til magnaðrar rógsherferðar gegn Sigbirni sem lauk með því að hann gaf sætið frá sér fyrir Svanfríði.

Í febrúar 1999 var Margrét Frímannsdóttir skipuð „talsmaður“ Samfylkingarinnar af lítilli klíku úr forystu flokkanna sem mynduðu fylkinguna. Nokkru áður hafði þó Jóhanna Sigurðardóttir unnið einn glæsilegasta sigur sem um getur í prófkjöri á Íslandi þegar hún varð efst í gríðarfjölmennu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Eina lýðræðislega umboð Margrétar var að hafa verið stillt upp á framboðslista á Suðurlandi af lítilli nefnd. Eins og kom fram í blaðaviðtölum við Jóhönnu þegar tilkynnt var um talsmanninn var ekki einu sinni haft samráð við hana um hver yrði fyrir valinu.

Í mars 2001 efndi R-listinn undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til kosningar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Nokkru áður hafði R-listinn þó staðfest aðalskipulag þar sem gert var ráð fyrir flugvellinum á sínum stað til 2016. Fyrir kosninguna lýsti Ingibjörg borgarstjóri því yfir að niðurstaða kosningarinnar yrði bindandi ef 75% borgarbúa tækju þátt eða 50% greiddu öðrum hvorum kostinum sem í boði var. Aðeins um 18% studdu hvorn kost og tæp 64% mættu ekki á kjörstað. Engu að síður reyndi borgarstjóri að túlka niðurstöðuna andstæðingum flugvallarins í vil.

Í viðtali við fréttamann Ríkissjónvarpsins 3. febrúar 2005 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um framboð sitt gegn Össuri Skarphéðinssyni formanni Samfylkingarinnar: „Ég hef aldrei í pólitík farið áfram í gegnum flokksstofnanir, það er ekki það sem ég hef treyst á í pólitík.“ Árin 1994, 1998 og 2002 þáði Ingibjörg þó sæti á framboðslista R-listans án prófkjörs á meðan aðrir frambjóðendur slógust í prófkjöri. Árið 2002 fékk hún einnig að velja einn óháðan frambjóðanda með sér á listann. Fyrir valinu varð Dagur B. Eggertsson sem hafði haft uppi miklar yfirlýsingar um nauðsyn lýðræðislegra vinnubragða í stjórnmálum en þótti ljúft að vera valinn af einni manneskju á framboðslistann. Í tæpan áratug var Ingibjörg Sólrún því forystumaður R-listans vegna þess eins að flokksstofnanir vinstri flokkanna höfðu valið hana til þess.

Þegar hún ákvað svo að gerast frambjóðandi Samfylkingarinnar – auðvitað án prófkjörs – fyrir þingkosningar 2003 og bjóða sig þar með fram gegn samstarfsflokkum sínum í borgarstjórn settu þeir hana af fyrir svikin. Þórólfur Árnason var gerður að borgarstjóra án þess að nokkur borgarbúi kannaðist við að hafa greitt honum atkvæði sitt. En Ingibjörg varð ekki aðeins frambjóðandi Samfylkingarinnar heldur varð hún „forsætisráðherraefni“. Á nokkrum dögum í janúar 2003 varð hún „forsætisráðherraefni“ og helsti talsmaður flokksins án þess að nokkur flokksmaður hefði greitt því atkvæði og án þess að landsfundur, flokksstjórn eða þingflokkur hefðu fjallað formlega um þessi forystuskipti í flokknum. Össur Skarphéðinsson átti þó að heita formaður í flokknum og hafði meira að segja verið kosinn til þess á landsfundi hans. Hann hafði lýst því yfir 30. desember 2002 að ekki kæmi til greina að Ingibjörg yrði forsætisráðherraefni flokksins. Hún var orðin það þrettán dögum síðar.

Fyrir landsfund Samfylkingarinnar 2005 var starfsmaður á skrifstofu flokksins rekinn úr starfi fyrir að upplýsa formann flokksins um að Helga Jónsdóttir borgarritari og fleiri vinir Ingibjargar Sólrúnar væru orðnir félagar í flokknum, væntanlega til að kjósa Ingibjörgu í formannskjöri gegn Össuri. Þegar formaður í flokki lætur reka starfsmenn sína fyrir slíkar sakir er vart við öðru að búast en hann verði flengdur í formannskjöri. Það gerði Ingibjörg í póstkosningu fyrir landsfundinn 2005.

Á þessum landsfundi greiddu svo 839 „manns“ atkvæði í varaformannskjöri. Ágúst Ólafur Ágústsson fékk flest atkvæði og Lúðvík Bergvinsson varð annar. Líkt og Vefþjóðviljinn rakti á sínum tíma var varaformannskjörið mjög umdeilt og ekkert sem bendir til að 839 hafi greitt atkvæði heldur hafi einfaldlega verið kosið fyrir fjarstadda. Kosið var í tölvum svo að kjósendur gátu hæglega kosið fyrir aðra án þess að mikið bæri á hefðu þeir leyst út kjörgögn og lykilorð viðkomandi. Mörður Árnason alþingismaður gerði fyrirspurn um það til kjörstjórnar á fundinum hvort hægt væri að leysa út kjörgögn og kjósa fyrir aðra kjósendur. Ásakanir um að stuðningsmenn Ágúst Ólafs hefðu haft rangt við komu úr ýmsum áttum en þegar nýkjörinn formaður flokksins var spurður um þær daginn eftir landsfundinn í viðtali við Fréttablaðið sagði hún einfaldlega: „Mér sýnist munurinn hafa verið það mikill á honum og Lúðvík Bergvinssyni að þær hafi ekki skipt sköpum.“ Það er allt í lagi að svindla ef svindlið er innan hóflegra marka.

Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 2006 vegna þingkosningar 2007 lenti Kristrún Heimisdóttir í níunda sæti, Valgerður Bjarnadóttir í tíunda og Guðrún Ögmundsdóttir í ellefta. Langt fyrir neðan þær varð Ellert B. Schram. Enginn þessara baráttukvenna er nú á þingi en það er Ellert B. Schram hins vegar eftir að kjörnefnd flokksins endurraðaði honum upp fyrir konurnar svo hann yrði ekki lýðræðinu að bráð. Ellert er ekki óvanur að njóta óvænts gengis í bakherbergjum Samfylkingarinnar því 2003 hafði Eiríki Bergmann Einarssyni verið lofað 6. sætinu á framboðslista flokksins í Reykjavík en skömmu síðar var Ellert sestur þar en Eiríkur lækkaður niður í 7. sæti.