Föstudagur 11. janúar 2008

11. tbl. 12. árg.

H vað ætli hinn almenni maður – sem semur sjálfur við sína vinnuveitendur þegjandi og hljóðlaust – þurfi að horfa lengi upp á fréttatímar séu lagðir undir kleinufundi „aðila vinnumarkaðarins“ hjá ríkissáttasemjara? Þennan ríkissáttasemjarna fjármagnar hinn almenni maður líka með sköttunum sínum. Á þessum ótrúlega fréttnæmu fundum sitja einhverjir undarlegir menn sem eru að semja fyrir launþega út í bæ sem hafa aldrei beðið um þennan óþarfa millilið sem kallast stéttarfélög.

Aðgangur þessara óþörfu milliliða að hljóðnemum og myndavélum fjölmiðlanna veitir þeim svo tækifæri til að gera í sífellu pólitísk áhlaup á ríkisvaldið. Nú síðast heimtuðu þeir að jaðaráhrif skattkerfisins yrðu stóraukin með því að taka upp sérstakan persónuafslátt fyrir ákveðinn hluta launþega. Fyrir einu og hálfu ári beygðu þeir þáverandi ríkisstjórn til að draga 1% lækkun tekjuskatts sem þegar hafði verið lögfest til baka. Ný ríkisstjórn þorði sig heldur hvergi að hræra í skattamálum nú í haust því kjarasamningar væru framundan. Forsætisráðherra lýsti því yfir að gott væri að eiga eitthvað upp í erminni þegar stéttarfélagsforkólfarnir færu að birtast í viðtækjum landsmanna og hóta því að senda fólkið sem þeir hafa rænt samningsfrelsinu í verkfall.

En það eru ekki allir stjórnmálamenn sem sitja og bíða þess að forstjórar stéttarfélaganna segi þeim til hvaða skattaaðgerða á að grípa. Nokkur sveitarfélög hafa þegar lækkað álagningarstuðla fasteignagjalda til að vega á móti hærra fasteignamati. Meðal þeirra eru sveitarfélögin í kringum Reykjavík; Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær og nú síðast Hafnarfjörður. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík heldur hins vegar fast við þá stefnu sína að íbúðareigendur í borginni greiði 14% hærri fasteignagjöld á þessu ári en því síðasta og eigendur atvinnuhúsnæðis 20% hærri fasteignaskatt.