Fimmtudagur 10. janúar 2008

10. tbl. 12. árg.

U

Fyrrverandi sorphaugur við Seattle.

mhverfisráðherra hefur blásið í herlúðrana gegn óumbeðnum frípósti og vill að nefnd um málið kanni hvort ekki megi leggja einhverja skatta og gjöld á þennan póst í nafni umhverfisins. Flokksbróðir hennar viðskiptaráðherrann hefur hins vegar mestar áhyggjur af því að þeir sem beðið hafa um ákveðinn póst þurfi að greiða fyrir hann svonefnt seðilgjald og vill boð og bönn um það efni.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag segir Ari Edwald, einn fulltrúa í nefnd umhverfisráðherra um um minnkun úrgangs og aukna endurvinnslu á óumbeðnum prentpappír, að ef menn ætli að leggja gjöld á fríblöð og annan óumbeðinn póst hljóti aðrir skattar að lækka á móti. Ari bendir jafnframt á að útgefendur fríblaða hafi „hag af því að hafa ekki fleiri eintök í umferð en þarf. Það er miklu meira áhugamál okkar en endurvinnsla eða skattlagning.“
Þegar menn fjargviðrast yfir auglýsingapósti og fríblöðum gleymist það oft að þennan póst má afþakka. Margir afþakka allar slíkar sendingar pent með lítilli tilkynningu þess efnis á póstkassa sínum eða lúgu.

Umhverfisráðherra vill auka endurvinnslu með öllum ráðum. Endurvinnsla getur vissulega átt rétt á sér. Það er sjálfsagt að stunda hana þar sem hún er hagkvæmasti kosturinn til förgunar og þá þarf hvorki skatta, boð né bönn til þess. Endurvinnslu er oft stillt upp sem algerri andstæðu urðunar en urðun hefur lengstum verið ódýrari. Báðir kostir krefjast þó orku, landrýmis og fleiri kostnaðarsamra þátta. Það eru til dæmis ekki allir sem hafa pláss í íbúðum sínum til að koma fyrir nokkrum ruslatunnum til að flokka sorp og geyma dagblöð og flöskur. Menn geta að vísu hent gamla túpusjónvarpinu á haugana og fengið sér flatskjá upp á vegg til að koma sorpföndrinu fyrir. Fermetrinn undir gamla kassanum er ódýrasti fermetrinn í bænum eftir að flatskjáir lækkuðu í verði en kannski vilja menn nota hann undir eitthvað allt annað en gömul blöð. Landið inni í borgum undir flokkunarstöðvar er yfirleitt miklu verðmætara en það sem nýtt er undir urðun í útjaðri borga. Það er líka augljóslega dýrara að senda marga bíla eftir flokkuðu rusli en að einn sæki allt saman. Kostnaðurinn endurspeglar hve mikill skortur er á því sem til þarf í hvoru tilfelli. Ef endurvinnslan er dýrari en urðun er það vegna þess að meiri skortur er á orkunni og hráefnunum sem til þarf. Ef að dýrari kosturinn er tekinn eru menn að fara þá leið sem gengur frekar á þær auðlindir sem skortur er á. Það er að segja þær auðlindir sem eru dýrari.

Áhyggjur umhverfisráðherra af sorpinu og vilji hennar til að auka endurvinnslu kemur ekki á óvart. Sorp er ein af helstu grýlum umhverfissinna og ansi sannfærandi, ljót og illa lyktandi. Því er haldið fram að mannkynið sé að drukkna í eigin sorpi. Jæja. Ef Bandaríkjamenn tvöfölduðu á öldinni það sorp sem þeir gefa nú frá sér og flyttu það allt til Íslands færu 0,8% landsins undir það ef haugurinn væri 30 metra hár.