Helgarsprokið 30. desember 2007

364. tbl. 11. árg.

Þ að var hugguleg jólagjöfin sem leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins færðu borgurum sínum í ár. Hinn 13. desember skunduðu þeir til Lissabon í Portúgal til að skrifa undir sáttmála sem uppfærir stofnsáttmála sambandsins. Í raun er um ný drög að stjórnarskrá sambandsins að ræða. Það er enda ekkert launungarmál að sáttmálinn, sem nú var samþykktur af leiðtogunum og sendur verður í framhaldinu til samþykktar í aðildarríkjunum, kemur í stað stjórnarskrárinnar sem leiðtogar ríkjanna á sínum tíma féllust á en var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi og Frakklandi árið 2005.

Þar með var draumur fylgismanna um sambandsríki Evrópu fyrir bí – í bili. Því það var auðvitað ekki allt loft úr þeim sem troða vildu stjórnarskránni í gegn. Og eitt var víst í þeirra huga. Almenningur í nokkrum aðildarríkjum, sem hefur ekki einu sinni vit á hvað þeim er fyrir bestu, skyldi ekki stöðva samrunaferlið góða í ESB. Menn byrjuðu að hittast bak við luktar dyr og ljóst var í hvað stefndi. Vefþjóðviljinn benti á það hér og hér  að fylgismenn frekari samruna og sambandsríkis Evrópu myndu ekki láta lýðræðið þvælast fyrir sér. Vissulega væri það gott almannatengslatæki þegar niðurstaðan væri í samræmi við skoðanir stjórnmálaelítu sambandsins. En reynslan sýnir, að þá sjaldan sem almenningur er spurður um hvert halda skuli í Evrópusambandsvegferðinni og hann er á annarri skoðun en elítan, þá er fundin leið fram hjá vilja hans. Annað hvort er bara kosið aftur um sama hlutinn þangað til hann er samþykktur eða málið er þvælt og þruglað þangað til allir eru hættir að botna í því.

„Enginn þarf að velkjast í vafa um að með þessum samningi er verið að stíga enn eitt skref í átt að sambandsríki Evrópu. Þróunin sem á sér stað varðandi það hvernig meiriháttar ákvarðanir eru teknar í ESB valda áhyggjum. Látum fordæmisgildið fyrir önnur lönd liggja á milli hluta og það að sambandið uppfyllir alls ekki þær kröfur sem það gerir til væntanlegra aðildarríkja um lýðræðislega stjórnarhætti. Bandalagið er að verða risaveldi, sem stjórnað er af gífurlega valdamiklum embættismönnum…“

Hið síðara á við nú. Nú er látið líta út fyrir að búið sé að vinna málið að nýju, gjörbreyttur sáttmáli liggi fyrir og ekki sé gengið eins langt og í stjórnarskrárdrögunum sem lögð voru fyrir árið 2005. En það er auðvitað blekking ein. Eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni varð mikið vandræðaástand í sambandinu og var rætt hvernig koma mætti stjórnarskránni í gegn þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslnanna. Skyldi engu eirt í þeirri viðleitni eins og Vefþjóðviljinn benti á í helgarsprokunum sem vitnað er til að ofan. Raunar var vandræðaástandið slíkt, að hluti umræðunnar fór fram opinberlega þótt elítan reyndi vissulega að halda henni fyrir luktum dyrum. Eitt af því sem fram kom var, að margir töldu afar brýnt að kalla svona stjórnarskrá ekki stjórnarskrá enda mætti hugmyndin um evrópska stjórnarskrá andstöðu í sumum aðildarríkjunum! Eitt fyrsta viðfangsefni ímyndarsérfræðinga sambandsins var að finna heppilegt nafn fyrir stjórnarskrána sem valtað skyldi í gegn með öllum ráðum. „Reform Treaty“ (umbótasáttmálinn) skyldi hann heita. Hver er ekki hlynntur umbótum? Einnig var kippt út liðum þar sem vitnað er til þjóðsöngs Evrópu og Evrópufánans.

Menn hafa hins vegar reynt allt sem þeir geta til að leyna því að það er að langmestu leyti um sömu drög að ræða og lögð voru fyrir árið 2005 þó að þau hafi verið snurfusuð eilítið. Mikilvægast fyrir elítuna og markverðast fyrir borgarana er þó að samningurinn verður væntanlega hvergi sendur í þjóðaratkvæðagreiðslu nema hugsanlega á Írlandi. Stór hluti aðildarríkjanna lagði eða hafði í hyggju að leggja fyrri stjórnarskrárdrögin fyrir þjóðir sínar árið 2005. Nú tæpum þremur árum seinna ríkir um það nánast einhugur meðal leiðtoga aðildarríkjanna að nýju drögin, sem nota bene eru að miklu leyti hin sömu og árið 2005, skuli ekki setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það nægi að láta þjóðþingin samþykkja þau. Þessi sinnaskipti skyldu þó ekki vera vegna þess að borgararnir eru óútreiknanlegir og eru búnir að skemma fyrir einu sinni? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að samrunaferlið skuli halda áfram hvað sem sauðsvartur almúginn tautar og raular? Auðvitað, það er augljóst, það er í samræmi við vinnubrögðin í ESB og var fyrirsjáanlegt eins og Vefþjóðviljinn spáði fyrir um.

En er það ekki bara hið besta mál að leiðtogarnir velji þá leið sem tryggir framgöngu málsins? Það getur nú varla talist heppilegt að lýðræðið víki af því að leiðtogar þess telja að það sé nauðsynlegt til að gera sambandið skilvirkara og afkastameira. Nýja stjórnarskráin, eða umbótasamningurinn eins og ímyndarsérfræðingarnir fundu upp á að kalla hann og flestir blaðamenn hafa kokgleypt, er gífurlega umfangsmikill. Nái hann fram að ganga, eins og flest bendir til, verður um að ræða stórbreytingar á skipulagi og starfsháttum sambandsins.

Með samningnum breytist til dæmis atkvæðavægi aðildarríkja og tekur hér eftir að meira leyti mið af íbúafjölda ríkja. Neitunarvald aðildarríkja verður skert verulega og verður afnumið í tugum málaflokka. Þess í stað mun veginn meirihluti ráða úrslitum um langflestar ákvarðanir. Fækkað verður í framkvæmdastjórninni úr 27 í 17 og leggst af sú venja að í framkvæmdastjórn ESB sé einn frá hverju aðildarlandi. Varla dettur nokkrum manni í hug að minnstu ríkin muni bera skarðan hlut frá borði frá því sem verið hefur, allra síst þeim „fræðimönnum“ sem alltaf eru að reyna að sannfæra fólk um að smáríki séu svo áhrifarík í ESB! ESB fær samkvæmt nýju stjórnarskrárdrögunum eigin utanríkisráðherra sem verður talsmaður sambandsins í utanríkismálum. Huggulegt það. Gaman verður þegar einhver afdankaður evrópskur sósíalistinn talar ekki bara fyrir hönd lands síns heldur 27 evrópulanda! Þar að auki verður valinn forseti leiðtogaráðsins og verður kjörtímabil hans tvö og hálft ár. Það minnir óneitanlega á forsætisráðherra.

Það er því óumdeilanlegt að um er að ræða stóraukið afsal fullveldis aðildarríkjanna til ESB. En það má ekki kjósa því að elítan veit sem er: Það er nánast alveg fullvíst að borgarar eins eða fleiri aðildarríkja myndu hafna svo umfangsmiklum samningi og á það er ekki hægt að hætta. Lýðræðið stendur sum sé í vegi fyrir ætluðum framförum. Það verður því að víkja að sinni.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að með þessum samningi er verið að stíga enn eitt skref í átt að sambandsríki Evrópu. Þróunin sem á sér stað varðandi það hvernig meiriháttar ákvarðanir eru teknar í ESB valda áhyggjum. Látum fordæmisgildið fyrir önnur lönd liggja á milli hluta og það að sambandið uppfyllir alls ekki þær kröfur sem það gerir til væntanlegra aðildarríkja um lýðræðislega stjórnarhætti. Bandalagið er að verða risaveldi, sem stjórnað er af gífurlega valdamiklum embættismönnum sem sumir hverjir hafa með höndum dóms-, löggjafar- og framkvæmdavald eins og Vefþjóðviljinn hefur margoft bent á, og það án lýðræðislegs aðhalds og eftirlits. Þar fyrir utan þá er það því miður eins og Valéry Giscard d’Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands, bendir á að nýi samningurinn er óskiljanlegur fyrir almenning. Var nú vart á bætandi.

Lýðræðið er fyrir borð borið í ESB. Nú á að breyta eðli sambandsins án beinnar aðkomu kjósenda landanna. Og það leyfa menn sér þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi í ár sýnt mikinn vilja meðal borgara ýmissa aðildarríkja til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

Það er Vefþjóðviljanum með öllu hulið hvað nokkrum íslenskum „fræðimönnum“ gengur til í viðleitni sinni um að sannfæra Íslendinga um ágæti aðildar landsins að þessu ógnvekjandi, risavaxna og miðstýrða bákni sem sífellt sankar til sín meiri völdum án fullnægjandi lýðræðislegs aðhalds. Blaðið trúir því ekki sem illar tungur segja að skammsýni ráði þar för og von þeirra um starf í Brussel.