Laugardagur 29. desember 2007

363. tbl. 11. árg.

E inn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Pakistan var myrtur í vikunni eins og kunnugt er. Morðinginn mun hafa sprengt sjálfan sig í leiðinni til að leggja áherslu á sjónarmið sín og gerir það rannsókn málsins seinlegri. Þó hafa nokkrar ágætar tilgátur komið fram. Í fréttum hefur verið fullyrt að félagsskapurinn al-Qaeda hafi lýst morðinu á hendur sér – hvernig svo sem sá félagsskapur sendir nú frá sér formlegar yfirlýsingar – og raunar munu stjórnvöld í Pakistan sagst hafa upplýsingar sem bendi til þess að það sé rétt. Aðrar kenningar komu raunar fram strax í upphafi, en Jón Ormur Halldórsson taldi í Ríkisútvarpinu að einhverjir menn í pakistönsku leyniþjónustunni hefðu staðið fyrir morðinu og José Maria Aznar hefur lýst því yfir að ETA sé á bak við þetta.

En hvernig sem því er varið, þá leiðir morðið, og fréttamyndirnar sem því fylgja, huga Vesturlandabúa enn og aftur á þessar slóðir. Það eina sem virðist mega segja með vissu er að hamingjan veit hvað mun gerast í Pakistan á næstunni, landi þar sem hryðjuverkamenn hafa hreiðrað um sig, landi þaðan sem hryðjuverkamenn eru gerðir út um heiminn til óhæfuverka og landi þar sem stjórnarherinn ræður yfir kjarnorkuvopnum, eins skemmtileg tilhugsun og það er nú.

Þetta óhughreystandi ástand minnir menn líka á það, hversu mikilvægt það er að Vesturlandabúar haldi vöku sinni og gæti að öryggi sínu. Hættan á hryðjuverkum í heiminum  minnkar ekki við aukna upplausn í Pakistan. Og það er mikið á sig leggjandi til að koma í veg fyrir að fleiri lönd, þar sem allt getur gerst, komi sér upp kjarnorkuvopnum. Það verður að verjast hryðjuverkahættunni af raunsæi og láta hvorki stjórnast af einfeldningshætti né ofsahræðslu. Skynsamlegar varnir, byggðar á raunsæju mati, eru nauðsynlegar og væri algert ábyrgðarleysi ef Vesturlönd ypptu bara öxlum eins og ekkert gæti hent þau. En þess verður jafnframt að gæta að ganga ekki svo langt að Vesturlandabúar gerist sínir eigin fangaverðir.