Föstudagur 28. desember 2007

362. tbl. 11. árg.

E

Veiðar og át eru mikilvægir þættir náttúruverndar – ef eignarréttur er til staðar.

at great. Do good“ eru kjörorð veitingastaðanna Ted’s Montana Grill sem finna má vítt og breitt um austurhluta Bandaríkjanna. Á veggjum staðanna hanga höfuð vísunda og á matseðlinum eru vísundasteikur og borgarar. Annar eigandi veitingastaðanna er Ted Turner, betur þekktur sem fjölmiðlamógúll og fyrrverandi eiginmaður leikkonunnar Jane Fonda. Turner fjölskyldan á miklar landareignir í Ameríku og hefur meðal annars nýtt þær til að fjölga vísundum (bison). Þrátt fyrir að talið sé að nær 30 milljónir þeirra hafi tölt um gresjur Bandaríkjanna í byrjun 19. aldar en tæpum hundrað árum síðar voru þeir svo gott sem horfnir. Um þarsíðustu aldamót hafa sennilega verið til innan við þúsund dýr.

Það er þáttur í verndun vísundanna að snæða lund af þeim þar sem þeir mæna á mann sem skraut ofan af vegg. Veitingastaður Turners nýtir kjöt ef dýrum sem hann gætir landareignum sínum. Þar geta menn einnig greitt stórfé fyrir að skjóta dýrin. Bæði veiðarnar og átið renna þannig stoðum undir verndun stofnsins.

Aðalástæðan fyrir nær algerri útrýmingu vísunda á þarsíðustu öld var skortur á eignarrétti. Maður sem veiddi ekki vísund sem varð á vegi hans tapaði honum til næsta manns. „Menn líta á vísund sem fjársjóð á fæti en án eiganda“, sagði tímaritið Recreation árið 1901. Þessi skortur á öflugustu auðlindaverndinni fór ekki vel saman með tækninýjungum eins og hinum nákvæma Sharp’s riffli og flutningsgetu járnbrautanna.

Upp úr aldamótunum 1900 fóru framtakssamir auðmenn að stofna verndarsvæði fyrir dýrin og nú eru þau talin yfir 250 þúsund, þar af um 45 þúsund á löndum Turners. Innan við 10% stofnsins er í umsjá hins opinbera. Einkaeign á þessari auðlind hefur fært hana frá mörkum útrýmingar og á hvers manns disk.