Fimmtudagur 27. desember 2007

361. tbl. 11. árg.

V iðskiptablaðið gerir það ekki endasleppt við áskrifendur sína og í dag kom það út sem nær tvöhundruð blaðsíðna tímarit í tilefni áramótanna. Framan á blaðinu er íbygginn Björgólfur Thor Björgólfsson, einn allra umsvifamesti maður íslensks viðskiptalífs, en hann fékk í dag viðskiptaverðlaun blaðsins. Í blaðinu er rætt við Björgólf um íslenskt viðskiptalíf og fleira, þar á meðal um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en því er oft haldið fram að hún sé sérstök krafa viðskiptalífsins. Og hvað segir Björgólfur um það ráð að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Ég tel að það myndi takmarka okkur. Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir inn í ESB.

Það er gaman að heyra þessi orð Björgólfs Thors. Ekki af því að hann hljóti að vera alvitur eða að Vefþjóðviljinn sé sjálfkrafa sammála honum um hvaðeina. En undanfarin ár hefur því af og til verið haldið að fólki að innganga í Evrópusambandið sé einróma krafa viðskiptalífsins og þar vari ekki aðrir við en heimóttarmenn sem ekkert vit hafi á viðskiptum. Sennilega verður Björgólfur Thor Björgólfsson, sá Íslendingur sem lengst hefur náð í alþjóðlegum viðskiptum, ekki afgreiddur eins.