Miðvikudagur 26. desember 2007

360. tbl. 11. árg.

T he Wall Street Journal sagði frá því á aðfangadag að þótt það sé sjaldgæft að fulltrúar þeirra ríkja sem mynda Sameinuðu þjóðirnar sýni siðferðisþrek hafi fulltrúar Bandaríkjanna þó gert það um síðustu helgi þegar þeir voru einir um að greiða atkvæði gegn fjárhagsáætlun samtakanna. Atkvæði féllu 142-1. Blaðið hefur áður sagt frá því að útgjöld samtakanna muni aukast um 25% milli ára.

Helsta umkvörtunarefni Bandaríkjamanna mun hafa verið að SÞ ætla að endurtaka Heimsráðstefnu gegn kynþáttahatri eins og þá sem haldin var í Durban í Suður-Afríku í september 2001. Sú ráðstefna snerist upp í gyðingahatur. Á endanum gengu fulltrúar Bandaríkjanna, með Colin Powell þáverandi utanríkisráðherra í broddi fylkingar, á dyr. Í undirbúningsnefndinni fyrir næstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna af þessu tagi sat fulltrúi Líbýu auðvitað í forsæti og meðal varaforseta voru fulltrúar manngæskuríkjanna Kúbu og Írans.

The Wall Street Journal segir jafnframt að ljósið í hinum myrku fjármálum Sameinuðu þjóðanna sé að Bandaríkjunum hafi tekist að bjarga skrifstofu sem eltist við svik og pretti innan samtakanna. Það sé raunar viðtekin venja að Bandaríkin þurfti að berjast gegn því að þessi innri endurskoðun á fjármálum samtakanna sé slegin af. Endurskoðunin hafi engu að síður afhjúpað sviksamlega meðferð á mörg hundruð milljónum dala á undanförnum árum. Menn geti þakkað hinum svo- og títtnefnda „unilateralism“ Bush stjórnarinnar fyrir að þetta.